logo-for-printing

28. ágúst 2019

Yfirlýsing peningastefnunefndar 28. ágúst 2019

Bygging Seðlabanka Íslands

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 3,5%.

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í ágústhefti Peningamála er gert ráð fyrir 0,2% samdrætti í ár sem er lítillega minni samdráttur en spáð var í maí. Stafar það einkum af þróttmeiri vexti einkaneyslu en framlag utanríkisviðskipta er einnig hagstæðara þar sem eftirspurn beinist í meira mæli að innlendri framleiðslu og vegur það upp á móti meiri samdrætti í ferðaþjónustu. Hagvaxtarhorfur fyrir næsta ár hafa hins vegar versnað þar sem útlit er fyrir að það taki ferðaþjónustuna lengri tíma að ná sér á strik eftir áföll ársins.

Verðbólga var 3,4% á öðrum fjórðungi ársins en minnkaði í 3,1% í júlí. Undirliggjandi verðbólga hefur þróast með áþekkum hætti. Horfur eru á að verðbólga hjaðni hraðar en spáð var í maí og að hún verði komin í markmið á fyrri hluta næsta árs. Gengi krónunnar hefur hækkað um liðlega 2% milli funda og gjaldeyrismarkaður verið í ágætu jafnvægi. Verðbólguvæntingar hafa lækkað í markmið frá síðasta fundi og taumhald peningastefnunnar því aukist lítillega.

Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar.

 

Vextir verða því sem hér segir:
1. Daglán 5,25%
2. Lán gegn veði í verðbréfum 4,25%
3. Innlán bundin í 7 daga 3,50%
4. Viðskiptareikningar 3,25%
5. Bindiskyldar innstæður, meðaltalsuppfyllt 3,25%
6. Bindiskyldar innstæður, föst bindiskylda 0,00%

 

Vextir 28. ágúst 2019

Nr.17/2019
28. ágúst 2019


Til baka