logo-for-printing

04. október 2019

Málstofa um gengisþróun, innlenda útlánaþenslu og þjóðhagsvarúð

Bygging Seðlabanka Íslands

Málstofa um þetta efni var haldin í Sölvhóli, fundarherbergi í Seðlabankanum, mánudaginn 7. október kl. 15:00.

Frummælandi: Þorvarður Tjörvi Ólafsson, sérfræðingur (e. Senior Financial Sector Expert) hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, PhD.

Útdráttur: Í fyrirlestrinum er kastljósinu beint að hlutverki gengisþróunar sem drifkrafti í innlendri útlánaþenslu og að möguleikum á að beita þjóðhagsvarúðarstefnu til að milda slík áhrif. Tengsl raungengis og innlendra útlána eru rannsökuð í gagnasafni sem nær til 62 hagkerfa yfir tímabilið frá 1. ársfjórðungi 2000 til 4. ársfjórðungs 2016. Niðurstöður margvíðrar tímaraðagreiningar sýna sterk tengsl á milli gengishækkunar og aukningar í innlendri útlánaþenslu. Ef þjóðhagsvarúðarstefna hefur hins vegar verið hert í aðdraganda gengishækkunarinnar dregur úr þessum áhrifum gengis á útlán. Einnig verður skoðað að hvaða leyti sterk innlend útlánaþensla getur „togað inn“ fjármögnun að utan, sem getur aukið kerfisáhættu enn frekar, og að hvaða leyti þjóðhagsvarúð og fjármagnshöft geta mildað slík áhrif. Niðurstöðurnar sýna að undir slíkum kringumstæðum geta hnitmiðuð fjármagnshöft veitt þjóðhagsvarúð mikilvæga hjálparhönd í að milda samspil innlendrar útlánaþenslu og innstreymis erlends fjármagns.

Fyrirlesturinn byggir á rannsóknarritgerð eftir Þorvarð Tjörva, ásamt þeim Erlend Walter Nier og Yuan Gao Rollinson, sem birtast mun í rannsóknarritgerðaröð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Glærur frá málstofunni
Til baka