Breytingar á gengisskráningu
Samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands skal bankinn skrá gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum sem nota skal til viðmiðunar í opinberum samningum, dómsmálum og öðrum samningum milli aðila þegar önnur gengisviðmiðun er ekki sérstaklega tiltekin. Gengisskráning Seðlabankans gefur ekki fyrirmæli um það gengi sem einstaklingar og fyrirtæki geta almennt átt viðskipti með hjá fjármálafyrirtækjum, eða framsetning á því hvernig gengi krónu gagnvart erlendum gjaldmiðlum þróast innan dagsins. Gengisskráning Seðlabankans er einungis viðmið um stöðu á gjaldeyrismarkaði á tilteknum tímapunkti dagsins.
Dagleg gengisskráning Seðlabankans byggir á meðaltali miðgengis þeirra tilboða sem viðskiptavakar á millibankamarkaði bjóða í eina evru fyrir krónur á tímabilinu 10:45 og 11:00. Gengi evru gagnvart krónu og gengi allra annarra gjaldmiðla gagnvart evru er síðan notað til að reikna gengi þeirra gagnvart krónu.
Gengisskráning Seðlabankans hefur verið tvískipt frá árinu 2006. Annars vegar hefur verið um að ræða gengi íslensku krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum og gengi sérstakra dráttarréttinda Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þetta hefur kallast opinbert viðmiðunargengi og hefur Seðlabankinn bæði skráð miðgengi, sölugengi og kaupgengi þar sem miðgengi er miðpunktur milli kaup- og sölugengis. Hins vegar hefur verið skráð miðgengi annarra gjaldmiðla án þess að þeir hafi fallið í flokk opinbers viðmiðunargengis í skilningi laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Farið var að skrá miðgengi þessara gjaldmiðla þegar aðferðum við útreikning gengisvísitalna var breytt í desember 2006 .
Frá og með 1. apríl 2020 verður sú breyting gerð að Seðlabankinn mun eingöngu birta skráð miðgengi allra gjaldmiðla sem bankinn skráir og verður það þá opinbert viðmiðunargengi. Birting á kaup- og sölugengi gjaldmiðla mun hins vegar leggjast af. Þetta verklag er til samræmis við verklag seðlabanka í samanburðarlöndum.
Nánari upplýsingar veitir Gerður Ísberg, aðstoðarframkvæmdastjóra á sviði markaðsviðskipta og fjárstýringar í Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.
Frétt nr. 21/2919
9. október 2019