Afmörkun viðskipta við Seðlabanka Íslands
Seðlabankinn hefur ákveðið að frá og með 1. apríl 2020 mun bankinn fækka þeim aðilum sem átt geta viðskiptareikning í Seðlabankanum. Í þeim hópi eru nú bankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki*, ríkisstofnanir og ýmsir sjóðir í eigu ríkisins. Frá og með 1. apríl nk. munu eingöngu innlánsstofnanir, þ.e. viðskiptabankar, og sparisjóðir og A-hluta stofnanir í eigu ríkisins eiga þess kost.
Viðskiptareikningum lánafyrirtækja auk sjóða sem ekki teljast til A-hluta stofnana verður lokað 31. mars 2020. Lokunin tekur ekki til uppgjörsreikninga. Þá munu sömu aðilar ekki eiga kost á viðskiptum við Seðlabankann frá og með 28. febrúar 2020.
Til samræmis við ofangreint mun Seðlabanki Íslands breyta reglum nr. 585/2018 um bindiskyldu og reglum nr. 553/2009 um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands á þann hátt að lánafyrirtæki sem hafa starfsleyfi skv. 3. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki verði ekki bindiskyld frá og með 21. mars 2020 og hafi ekki aðgang að viðskiptum við Seðlabankann frá og með 28. febrúar 2020.
Markmið Seðlabankans með viðskiptum og lausafjárstýringu er að styðja við miðlun peningastefnunnar út vaxtarófið. Í ljósi þess telur Seðlabankinn betur samræmast hlutverki bankans að haga vaxtamiðlun í gegnum þau fjármálafyrirtæki sem geta með skilvirkum og gagnsæjum hætti miðlað henni áfram til einstaklinga og fyrirtækja í formi innlána eða útlána. Þá er Seðlabankinn ennfremur þeirrar skoðunar að betur samræmist inntaki 2. mgr. 17. gr. laga nr. 36/2001 að bankinn eigi ekki í samkeppni við fjármálafyrirtæki um innstæður. Innlánsreikningar við bankann eigi því ekki að vera kostur í fjárfestingum eða áhættudreifingu, umfram það sem nauðsynlegt er fyrir viðskiptabanka, sparisjóði og fjármálaumsýslu hins opinbera.
Nánari upplýsingar veitir Gerður Ísberg, aðstoðarframkvæmdastjóri á sviði markaðsviðskipta og fjárstýringar í Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.
Frétt nr. 22/2019
14. október 2019
*https://www.fme.is/eftirlit/eftirlitsskyld-starfsemi/eftirlitsskyldur-adilar/