Breyting á reglum um lausafjárhlutfall lánastofnana
Seðlabanki Íslands birti í dag reglur nr. 1170/2019, um breytingu á reglum um lausafjárhlutfall lánastofnana nr. 266/2017. Reglurnar voru einnig birtar í Stjórnartíðindum í dag og taka gildi 1. janúar 2020. Með breytingunni er innleitt 50% lágmarks lausafjárhlutfall í íslenskum krónum.
Lausafjárreglunum er ætlað að tryggja að lánastofnun eigi ávallt lausar eignir til að standa skil á fyrirsjáanlegum og hugsanlegum greiðsluskuldbindingum á tilteknu tímabili. Með reglunum eru þannig gerðar kröfur um að lánastofnanir hafi tiltækar lausar eignir til að geta ekki aðeins staðið skil á skuldbindingum á gjalddaga heldur einnig mögulegu útflæði sem verður til dæmis vegna úttekta innlána, minni möguleika á fjármögnun fyrir lánastofnanir eða aukinna krafna um tryggingar eða annað sem krefst fjárútláta lánastofnunar við álagsaðstæður næstu 30 daga.
Samkvæmt núgildandi reglum skal lausafjárhlutfall lánastofnunar vera að lágmarki 100% í öllum gjaldmiðlum samtals. Þá skal lánastofnun uppfylla að lágmarki 100% lausafjárhlutfall í öllum erlendum gjaldmiðlum samtals. Með breytingunni verður gerð krafa um að lánastofnanir uppfylli einnig að lágmarki 50% lausafjárhlutfall í íslenskum krónum.
Þar sem efnahagsreikningar lánastofnana og lausafjáráhætta þeirra er að mestu leyti í íslenskum krónum telur Seðlabankinn eðlilegt að krafa sé gerð um lausafjárforða í krónum. Mikilvægt er að lánastofnanir búi yfir lausu fé í krónum sem gerir þeim kleift að standa skil á eðlilegu útflæði og mæta sveiflum milli daga og vikna, svo og standa skil á stærri innlánum án vandkvæða. Við mat á leyfilegu lágmarks lausafjárhlutfalli í íslenskum krónum lítur Seðlabankinn til þess að fjölbreyttari hágæða lausafjáreignir er að finna í erlendum eignum. Þá eru innlán í Seðlabankanum vegna bindiskyldu ekki talin til lausra eigna í skilningi lausafjárreglna. Hið sama gildir í öðrum ríkjum innan EES, en á hinn bóginn er bindiskylda hér á landi hærri en víða annars staðar. Einnig er lausafjárhlutfall lánastofnana nokkuð sveiflukennt og verður að gera ráð fyrir því að þær þurfi að jafnaði að hafa lausafjárhlutfall í íslenskum krónum hærra en lágmark er samkvæmt reglunum. Með hliðsjón af því telur Seðlabankinn nægjanlegt að gera kröfu um 50% lágmarks lausafjárhlutfall í íslenskum krónum.
Til viðbótar eru gerðar afleiddar breytingar á reglunum í tengslum við kröfuna um lágmarks lausafjárhlutfall í íslenskum krónum. Þá eru gerðar aðrar minni háttar breytingar á reglunum sem ekki eru efnislegar.
Reglur 1170/2019 má finna hér: Reglur 1170/2019 á vef Stjórnartíðinda.
Sjá hér einnig á vef Seðlabankans tengla í reglur 1170/2019 og 266/2017.
Nánari upplýsingar veitir seðlabankastjóri í síma 5699600.