Fréttir Seðlabankans vegna COVID-19
Hér eru á einum stað þær fréttir og tilkynningar sem Seðlabankinn hefur til þessa birt í tengslum við viðbrögð við útbreiðslu COVID-19. Bankinn greindi fyrst frá breyttri starfsemi 10. þessa mánaðar og daginn eftir var birt frétt um fyrstu aðgerðina.
VIÐBÓT: Fréttir af þessu tagi verða birtar á þessu svæði: Tilkynningar vegna COVID-19
Aðgerðir Seðlabanka Íslands:
11. mars 2020:
Fundi peningastefnunefndar sem vera átti 18. mars 2020 var flýtt um viku. Birt yfirlýsing peningastefnunefndar um lækkun á vöxtum bankans um 0,5 prósentur og lækkun á meðaltalsbindiskyldu innlánsstofnana úr 1% niður í 0%. Sjá hér: Yfirlýsing peningastefnunefndar 11. mars 2020.
18. mars 2020:
Peningastefnunefnd og fjármálastöðugleikanefnd héldu fundi og sendu frá sér yfirlýsingar 18. mars. Peningastefnunefnd ákvað að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur og fjármálastöðugleikanefnd ákvað að aflétta 2% kröfu um sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki og verður hann því 0%. Sjá hér: Yfirlýsingar peningastefnunefndar og fjármálastöðugleikanefndar.
23. mars 2020:
Peningastefnunefnd hélt aukafund 22. mars 2020 og tilkynnti 23. mars 2020 að Seðlabankinn myndi hefja bein kaup á skuldabréfum ríkissjóðs á eftirmarkaði. Sjá hér: Yfirlýsing peningastefnunefndar 23. mars 2020.
25. mars 2020:
Kynning á nýlegum aðgerðum í peningamálum er varða kaup á ríkisskuldabréfum var haldin 25. mars 2020. Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands kynntu aðgerðirnar ásamt því að fara yfir stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Sjá hér: Kynningarefni frá vefútsendingu
27. mars 2020:
Seðlabankinn hefur ákveðið að draga verulega úr framboði bundinna innlána til eins mánaðar en næsta útboð verður haldið 1. apríl nk. Þessi breyting kemur í kjölfar þess að aðstæður á innlendum mörkuðum hafa breyst mikið á stuttum tíma. Sjá hér: Seðlabankinn minnkar framboð bundinna innlána til eins mánaðar.
Tilkynningar frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands:
12. mars 2020:
Stjórn Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar (ESMA) hefur sent frá sér yfirlýsingu og mælir með að aðilar á fjármálamarkaði grípi til aðgerða vegna COVID-19. Sjá hér.
16. mars 2020:
Breytt viðmiðunarmörk vegna tilkynninga um skortstöður. Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands vekur athygli á að Eftirlitsstofnun EFTA hafi tekið ákvörðun um að breyta viðmiðunarmörkum vegna tilkynninga um skortstöður í hlutabréfum sem hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Sjá hér.
18. mars 2020:
Stjórn Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar á vátrygginga- og lífeyrissjóðamarkaði (EIOPA) sendir frá sér yfirlýsingu vegna COVID-19 faraldursins og mælir með að aðilar grípi til aðgerða og upplýsi um aðgerðir. Sjá hér.
Aðrar tilkynningar um starfsemi Seðlabanka Íslands í kjölfarið á COVID-19:
- Myntsafni Seðlabanka og Þjóðminjasafns lokað um tíma (10. mars 2020).
- Ákveðið að fresta málstofu (10. mars 2020). Ýmsum öðrum fundum, heimsóknum og ferðum jafnframt frestað.
- Viðbragðsáætlun Seðlabanka Íslands virkjuð. Starfsfólki á starfsstöðvum fækkað eins og kostur er. 12. mars 2020.
- Ákveðið er að ársfundur Seðlabanka Íslands 25. mars 2020 verði í vefútsendingu. 20. mars 2020.