logo-for-printing

17. apríl 2020

Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2020

Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2020

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri tók þátt í vorfundi fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (International Monetary and Financial Committee, IMFC) fimmtudaginn 16. apríl 2020. Fundur nefndarinnar var að þessu sinni fjarfundur vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Lesetja Kganyago, seðlabankastjóri Suður-Afríku, er formaður nefndarinnar og fulltrúi Norður- og Eystrasaltslanda í nefndinni var að þessu sinni Katri Kulmuni, fjármálaráðherra Finnlands.

Í yfirlýsingu fjárhagsnefndarinnar (IMFC Communiqué) kemur m.a. fram að mikilvægasta sameiginlega verkefni aðildarríkjanna sé að takast á við heilsufarslegar og efnahagslegar afleiðingar Covid-19 faraldursins. Þá segir að sú efnahagskreppa sem ríður yfir sé án fordæma og muni leiða til mikils samdráttar í heimsbúskapnum á þessu ári. Mikil óvissa ríki um framvinduna en þó er grunnsviðsmyndin sú að alþjóðahagkerfið taki við sér á næsta ári, m.a. í krafti aðgerða stjórnvalda við að halda faraldrinum í skefjum, vernda störf og hvetja til hagvaxtar að nýju.

Fjárhagsnefndin lofaði einnig viðbrögð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við kreppunni, sem hafa m.a. falist í auknu aðgengi að lánsfé og ráðgjöf við stefnumótun í aðildarríkjunum. Neyðarfjármögnun hefur verið veitt úr hamfarasjóðum og komið hefur verið til móts við aðildarlönd vegna lausafjárvanda sem hefur skapast vegna flótta fjárfesta í öruggar eignir. Þá hefur einnig verið brugðist við stöðu lágtekjulanda og annarra landa í erfiðri stöðu með skuldaafléttingu og skuldaaðlögun.

Hér að neðan má finna tengla með efni frá vorfundinum:
Ályktun fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMFC Communiqué)

Stefnuyfirlýsing Kristalinu Georgievu, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (Global Policy Agenda, GPA)

Yfirlýsingar allra kjördæma í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMFC Statements)


Til baka