logo-for-printing

22. apríl 2020

Tilkynning vegna kaupa Seðlabanka Íslands á skuldabréfum ríkissjóðs

Bygging Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands mun í byrjun maí 2020 hefja kaup skuldabréfa ríkissjóðs á eftirmarkaði í samræmi við yfirlýsingu peningastefnunefndar bankans frá 23. mars 2020. Markmið kaupanna er að tryggja miðlun peningastefnunnar út vaxtarófið til að slakara taumhald peningastefnunnar skili sér með eðlilegum hætti til heimila og fyrirtækja. Í þessu samhengi er sérstaklega horft til markaðsáhrifa af fyrirsjáanlegu auknu framboði ríkisbréfa næstu misserin á miðlun peningastefnunnar.

Miðað verður að því að umfang kaupanna séu í samræmi við eðlilega virkni markaðarins. Seðlabankinn áskilur sér því fullan sveigjanleika til að aðlaga fjárhæð, tíðni og framkvæmd kaupanna til að tryggja skilvirkni aðgerðanna.

Samkvæmt fyrrgreindri ákvörðun peningastefnunefndar getur heildarfjárhæð skuldabréfakaupa bankans numið allt að 150 ma.kr. Framkvæmd kaupanna verður með þeim hætti að Seðlabankinn mun tilkynna fyrirfram um hámarks fjárhæð skuldabréfakaupa í hverjum ársfjórðungi. Heildarkaup bankans á öðrum ársfjórðungi geta numið allt að 20 ma.kr. að kaupverði.*

Kaupin munu beinast að öllum markflokkum óverðtryggðra ríkisbréfa í íslenskum krónum með gjalddaga á árunum 2021, 2022, 2025, 2028 og 2031og nýjum markflokkum óverðtryggðra ríkisbréfa sem kunna að bætast við.

Seðlabankinn mun framkvæma kaupin annað hvort með því að leggja fram tilboð í viðskiptakerfi Kauphallar Nasdaq eða með útboði. Kaupin munu hefjast með framlagningu tilboða í viðskiptakerfi Kauphallar Nasdaq.

Tilkynnt verður um möguleg útboð með eins dags fyrirvara ásamt upplýsingum um þá flokka sem kaupin ná til og áætlaða hámarksfjárhæð kaupanna. Finna má upplýsingar um almenna útboðsskilmála fyrir möguleg útboð vegna kaupa Seðlabanka Íslands á skuldabréfum ríkissjóðs á eftirmarkaði hér.  

Nánari upplýsingar veitir Sturla Pálsson framkvæmdastjóri markaðsviðskipta í síma 569 9600.

 

* Með kaupverði er átt við hreint verð (e. clean price) með áföllnum verðbótum á höfuðstól, þ.e. verð með verðbótum án áfallinna vaxta.

Nr. 14/2020
22. apríl 2020


Til baka