Yfirlýsing EBA um túlkun og beitingu varfærnisreglna og framkvæmd eftirlits á tímum COVID-19
Evrópska bankaeftirlitsstofnunin (European Banking Authority, EBA) hefur sent frá sér yfirlýsingu um túlkun og beitingu varfærnisreglna og framkvæmd eftirlits á tímum COVID-19. Yfirlýsingin kemur í framhaldi af fjórum yfirlýsingum stofnunarinnar af sama tilefni í mars og apríl. Yfirlýsingin skiptist í fjóra hluta: (a) Könnunar- og matsferli (SREP-ferli), (b) endurbótaáætlanir, (c) viðnámsþróttur í stafrænum lausnum og rekstri, (d) beiting nýrra viðmiðunarreglna EBA um frystingu lána þegar kemur að verðbréfun.
Í þessu sambandi vill Seðlabankinn einnig vekja athygli á yfirlýsingu fjármálaeftirlitsnefndar hinn 8. apríl 2020 þar sem m.a. var greint frá því að nú stæði yfir árlegt könnunar- og matsferli hjá kerfislega mikilvægum bönkum og að endanlegar ákvarðanir um eiginfjárþörf myndu væntanlega miðast við uppgjör síðar á árinu fremur en árslok 2019. Þá kom fram í yfirlýsingunni að ekki yrði framkvæmt hefðbundið álagspróf í tengslum við yfirstandandi SREP-ferli að svo stöddu.