10. júní 2020
OECD birtir bráðabirgðatölur um helstu kennitölur lífeyrissparnaðar
Efnahags og framfarastofnunin (OECD) hefur birt bráðabirgðatölur um helstu kennitölur lífeyrissparnaðar innan aðildarlanda sinna og valinna landa utan samtakanna. Eignir lífeyrissjóða eru taldar hafa numið um 32 trilljónum Bandaríkjadala við árslok 2019.Eftir lækkanir seinni hluta árs 2018 hækkuðu eignir lífeyrissjóða innan OECD landa að meðaltali um 13,2% og um 11,3% meðal landa utan samtakanna árið 2019. Aðeins í einu landi, Póllandi, lækkuðu eignir sjóðanna og má rekja það til kerfisbreytinga á lífeyrismarkaði þar í landi.
Samkvæmt gögnum OECD nemur lífeyrissparnaður á vegum íslenskra lífeyrissjóða, samtryggingar og séreignar, um 167% af vergri landsframleiðslu (VLF). Að meðtöldum sparnaði á vegum innlendra og erlendra vörsluaðila séreignasparnaðar nemur heildarsparnaður um 177% af VLF. Eins og áður er lífeyrissparnaður hér á landi einhver sá mesti innan OECD landa á eftir Danmörku og Hollandi. Lífeyrissparnaður í sumum löndum er ekki aðeins bundinn við lífeyrissjóði heldur er hann geymdur með öðrum hætti eins og í tryggingaafurðum á vegum tryggingafélaga, lífeyrisskuldbindingum vinnuveitenda og séreignarsparnaði á vegum banka og verðbréfasjóða. Af þeim sökum er oft erfitt að fá heildarmynd af lífeyrissparnaði þar sem upplýsingagjöfin er ekki með jafn skipulegum og gegnsæjum hætti og hjá lífeyrissjóðum.
Ávöxtun var með mesta móti meðal OECD landa árið 2019 og jákvæð í nærri öllum löndum. Samkvæmt samræmdum útreikningum OECD var raunávöxtun hæst í Litháen eða 16,6%. Raunávöxtun meðal íslenskra lífeyrissjóða nam 11,6% og var með því hæsta samanborið við þau lönd sem tölur samtakanna ná til.
Ef litið er á samsetningu eigna lífeyrissjóða er stærstur hluti eigna í skuldabréfum og hlutabréfum. Samsetning eigna íslenskra lífeyrissjóða er með líkum hætti og í okkar helstu samanburðalöndum þegar horft hefur verið í gegnum eignir í verðbréfasjóðum sem að stærstum hluta eru í hlutabréfum.
Sjá nánar frétt OECD hér.