Nýjar reglur um gjaldeyrismarkað
Seðlabanki Íslands hefur gefið út nýjar reglur um gjaldeyrismarkað nr. 600/2020 og taka þær gildi 30. ágúst 2020. Reglurnar koma í stað reglna nr. 1098/2008.
Helstu breytingar með nýjum reglum snúa m.a. að skilyrðum þess að viðskiptavakar tileinki sér alþjóðlegu siðareglur Alþjóðagjaldeyrisnefndarinnar (e. The Global Foreign Exchange Committee, GFXC), FX Global Code, sem fjalla um bestu framkvæmd gjaldeyrisviðskipta. Seðlabankinn tók upp FX Global Code í nóvember 2018 og tilkynnti um það á heimasíðu bankans. Hægt er að kynna sér siðareglurnar hér: Gjaldeyrisviðskipti í anda FX Global Code (Frétt nr. 16/2018)
Þá hefur tímasetningu skráningar verið breytt sem og birtingu opinbers viðmiðunargengis íslensku krónunnar. Frá og með 31. ágúst 2020 mun Seðlabanki Íslands skrá opinbert viðmiðunargengi um klukkan 14:15 á mið-evrópskum tíma* (e. Central European time) til samræmis við verklag sem þekkist í nágrannalöndum. Viðmiðunargengið verður síðan birt opinberlega á heimasíðu bankans um klukkan 16:00 á íslenskum tíma hvern viðskiptadag en ekki um klukkan 11:00 eins og áður. Seðlabankinn leggur áherslu á að gengi gjaldmiðla er eingöngu birt í upplýsingaskyni og til að fullnægja lagakröfum.
Reglur nr. 600/2020 um gjaldeyrismarkað má finna hér: Reglur um gjaldeyrismarkað nr. 600/2020 (á vef Stjórnartíðinda)
*Skráningin miðast alltaf við 14:15 á mið-evrópskan tíma og breytist því skráningartíminn á íslenskum tíma þegar mið-evrópskur tími breytist milli sumar og vetrartíma.
Frétt nr. 20/2020
18. júní 2020