Nýtt millibankagreiðslukerfi Seðlabanka Íslands
Reglur nr. 1030/2020 um millibankagreiðslukerfi Seðlabanka Íslands tóku gildi mánudaginn 26. október 2020, sama dag og kerfið var tekið í notkun, en gangsetning þess hófst þremur dögum fyrr, sbr. frétt Seðlabanka Íslands 19. október 2020. Kerfið er í eigu Seðlabankans og leysir af hólmi stórgreiðslukerfi bankans og jöfnunarkerfi Greiðsluveitunnar ehf. sem jafnframt er í eigu bankans. Stór hluti allra fjármálafærslna einstaklinga og fyrirtækja á milli innlánsstofnana í landinu fer um millibankagreiðslukerfi Seðlabankans, t.d. debetkortafærslur og almennar millifærslur á milli reikninga. Fyrri kerfi voru komin til ára sinna og endurnýjun þeirra var orðin tímabær. Markmiðið er sem fyrr að miðla greiðslum hér á landi á skjótan, öruggan og hagkvæman hátt.
Samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, skal bankinn stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslumiðlun í landinu og við útlönd. Um millibankagreiðslukerfið gilda lög nr. 90/1999 um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum. Þátttakendur í kerfinu eru m.a., auk Seðlabankans, fjármálafyrirtæki hér á landi sem hafa hlotið starfsleyfi samkvæmt 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Reiknistofa bankanna er þjónustuaðili fyrir kerfið. Í kjölfar setningar reglna nr. 1030/2020 verða reglur nr. 703/2009 um stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands og reglur nr. 704/2009 um starfsemi jöfnunarkerfa felldar úr gildi.
Eins og fram kom í frétt Seðlabanka Íslands 19. október 2020 er hlutverk hins nýja millibankagreiðslukerfis tvíþætt. Annars vegar eru þar gerðar upp stórgreiðslur, þ.e. greiðslur sem eru 10 m.kr. eða hærri, í rauntíma á stórgreiðslureikningum fjármálafyrirtækja í Seðlabankanum. Hins vegar eru þar smágreiðslur, þ.e. greiðslur undir 10 m.kr. Jöfnunarfjárhæðir úr smágreiðsluviðskiptum eru svo gerðar upp á stórgreiðslureikningum tvisvar á sólarhring á virkum dögum.
Á síðasta ári var veltan í stórgreiðslukerfinu 17 þúsund milljarðar króna í um 118 þúsund greiðslufyrirmælum. Í jöfnunarkerfinu var veltan rúmlega fjögur þúsund milljarðar króna og færslufjöldinn ríflega 68 milljónir. Á þessu sést hversu mikilvægt millibankagreiðslukerfið er fyrir viðskipti hér á landi.
Þátttakendur í millibankagreiðslukerfinu lúta eftirliti skv. lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Þeir verða að uppfylla kröfur um eiginfjárhlutfall og lausafjárhlutfall, vera með innra eftirlit til þess að koma í veg fyrir peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka, hafa yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi, hafa lagt fram fullnægjandi uppgjörstryggingar í Seðlabanka Íslands og að ráða yfir viðbúnaðaráætlun til nota í áföllum.
Sjá hér reglur 1030/2020: Reglur um millibankagreiðslukerfi Seðlabanka Íslands, nr. 1030/2020.
Sjá hér frétt Seðlabanka Íslands 19. október 2020: Nýtt millibankagreiðslukerfi tekið í notkun í vikulokin.