Reglubundin gjaldeyrissala Seðlabanka Íslands
Frá og með mánudeginum 2. nóvember nk. og til mánaðarloka mun Seðlabanki Íslands selja viðskiptavökum á gjaldeyrismarkaði 3 m. evra hvern viðskiptadag, samtals 63 m. evra. Viðskiptin munu fara fram fljótlega eftir opnun markaðarins og eigi síðar en kl. 10 árdegis. Viðskiptin eru í samræmi við frétt nr. 30/2020 sem birtist 9. september 2020.
Seðlabankinn hóf sölu á gjaldeyri til viðskiptavaka með reglubundnum hætti 14. september 2020 og er markmiðið með sölunni að auka dýpt gjaldeyrismarkaðarins og bæta verðmyndun. Samtals seldi bankinn 66 m. evra (10,8 ma.kr.) með reglubundnum hætti í október.
Reglubundin gjaldeyrissala hefur ekki áhrif á yfirlýsta stefnu bankans um að grípa inn í á gjaldeyrismarkaði til að draga úr sveiflum eftir því sem hann telur tilefni til.
Nánari upplýsingar veitir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í síma 569 – 9600.
Sjá hér hlekk á frétt bankans nr. 30/2020 frá 9. september 2020.
Nr. 39/2020
30. október 2020