13. nóvember 2020
Upplýsingar um ákvörðun Seðlabanka Slóvakíu um tímabundnar takmarkanir á frjálsri ráðstöfun eigna NOVIS
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (Fjármálaeftirlitið) vekur athygli á ákvörðun um tímabundnar takmarkanir á ráðstöfun eigna NOVIS Insurance Company, NOVIS Versicherungsgesellschaft, NOVIS Compagnia di Assicurazioni, NOVIS Poisťovňa a.s. (NOVIS), sem Seðlabanki Slóvakíu (Národná banka Slovenska, NBS) tók hinn 5. nóvember 2020.Ákvörðun NBS felur í sér að settar eru takmarkanir á frjálsri ráðstöfun eigna NOVIS. Félaginu er nú m.a. gert að forðast (e. refrain from) ráðstöfun eigna s.s. breyta eignarhaldi eða millifæra eignir af bankareikningum félagsins. Þá ber félaginu að forðast að gera löggerninga sem geta leitt til þess að eignir félagsins minnki. Félaginu er þó heimilt að ráðstafa eignum sínum í tilteknum tilvikum, s.s. til að standa skil á ýmsum greiðslum er tengjast kröfum vegna vátryggingasamninga og tryggja reglulega starfsemi.
NOVIS ber að upplýsa NBS ef félagið stofnar eða lokar bankareikningum eða vörslureikningum verðbréfa. Þá ber NOVIS að senda NBS yfirlit yfir reikninga félagsins mánaðarlega ásamt hreyfingum á fyrrgreindum reikningum.
Nánari upplýsingar má sjá í ákvörðun NBS.
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur fjallað um fyrri ákvörðun NBS, frá 11. september 2020, sem enn er í gildi.