logo-for-printing

16. desember 2020

Yfirlýsing fjármálastöðugleikanefndar 16. desember 2020

Fjármálastöðugleikanefnd. Efri röð frá vinstri: Tómas Brynjólfsson, Bryndís Ásbjarnardóttir, Guðmundur Kristján Tómasson og Axel Hall. Neðri röð frá vinstri: Rannveig Sigurðardóttir, Ásgeir Jónsson, Gunnar Jakobsson og Unnur Gunnarsdóttir.

Slakara taumhald peningastefnunnar hefur stutt við eignamarkaði og auðveldað heimilum og fyrirtækjum að takast á við afleiðingar farsóttarinnar og viðhaldið fjármálastöðugleika. Lækkun sveiflu-jöfnunaraukans og aðgerðir til að auka laust fé í umferð hafa auðveldað fjármálafyrirtækjum að vinna með lántakendum í greiðsluerfiðleikum og samtímis viðhalda útlánagetu. Að mati nefndarinnar hefur sveiflutengd kerfisáhætta ekki aukist að neinu marki síðustu misseri.

Eiginfjár- og lausafjárstaða stóru bankanna þriggja er sterk. Vaxtaálag á skuldabréfaútgáfur þeirra hefur lækkað. Bankarnir hafa því greiðan aðgang að lausu fé bæði í krónum og erlendum gjaldmiðlum sem þeir hafa nýtt til endurfjármögnunar. Þeir búa þannig yfir miklum viðnámsþrótti til að takast á við neikvæðar afleiðingar farsóttarinnar.

Lágvaxtaumhverfi skapar nýjar áskoranir á fjármálamarkaði. Sérstaklega á þetta við um lífeyrissjóði sem eru ráðandi þátttakendur á innlendum fjármálamarkaði og kerfislega mikilvægir. Mikilvægt er því að við stefnumótun lífeyrissjóðakerfisins sem nú stendur fyrir dyrum verði tekið mið af áhrifum þeirra á fjármálastöðugleika.

Fjármálastöðugleikanefnd hefur ákveðið að nýtt millibankakerfi Seðlabankans og verðbréfauppgjörskerfi Nasdaq CSD SE teljist til kerfislega mikilvægra innviða.

Nefndin skal ársfjórðungslega ákveða gildi á sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki og hefur ákveðið að halda aukanum óbreyttum.

Fjármálastöðugleikanefnd mun beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika hér á landi.

 

Nr. 43/2020
16. desember 2020

Sjá hér fylgiskjöl: 

Fjármálainnviðir, 10. desember 2020.

Bakgrunnur ákvörðunar um sveiflujöfnunarauka, 10. desember 2020.


Til baka