14. janúar 2021
Samkomulag um sátt vegna brota Sparisjóðs Strandamanna ses. á ákvæðum laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka
Hinn 2. desember 2020 gerði Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands og Sparisjóður Strandamanna ses. (hér eftir sparisjóðurinn) með sér samkomulag um að ljúka með sátt, að fjárhæð 2.500.000 kr., máli vegna brota sparisjóðsins á ákvæðum laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.Í samkomulaginu kemur m.a. fram að áhættumat sparisjóðsins og stefna og verkferlar hafi ekki verið í samræmi við þær kröfur sem fram koma í lögunum. Þá var framkvæmd sparisjóðsins á áreiðanleikakönnunum talin ábótavant. Í 10 tilfellum af 15 hafði ekki verið aflað upplýsinga um raunverulega eigendur og í 13 tilfellum af 15 höfðu upplýsingar um raunverulega eigendur ekki verið sannreyndar. Þá höfðu lögaðilar, raunverulegir eigendur, prókúruhafar og aðrir þeir sem hafa sérstaka heimild til að koma fram fyrir hönd viðskiptavinar í sjö tilfellum af níu ekki sannað á sér deili með fullnægjandi hætti. Samkomulagið kveður ennfremur á um að alvarlegir annmarkar hafi verið varðandi könnun áreiðanleika upplýsinga um tiltekinn viðskiptamann sem sér um innheimtu smálána. Þá segir í samkomulaginu að eftirlit sparisjóðsins með einstaklingum í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla og þjálfun og fræðsla starfsmanna hafi verið ófullnægjandi.
Viðurkenndi sparisjóðurinn að hann hefði með háttsemi sinni brotið gegn 5., 10., 13. 17., 30. og 33. gr. laga nr. 140/2018. Þá viðurkenndi sparisjóðurinn brot gegn 7. gr. laga nr. 64/2019, um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna, með því að hafa ekki haft til staðar viðeigandi eftirlitskerfi til að meta hvort viðskiptamenn væru á lista yfir þvingunaraðgerðir. Sparisjóðnum var þó ekki gerð sekt vegna þess brots.
Sjá nánar: Samkomulag um sátt vegna brota Sparisjóðs Strandamanna ses. á ákvæðum laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.