logo-for-printing

08. mars 2021

Varaseðlabankastjóri með grein um jafnréttismál í nýrri skýrslu

Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri

Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, birti í dag, mánudaginn 8. mars, grein í jafnréttisskýrslu hugveitunnar OMFIF (Official Monetary and Financial Institutions Forum). Skýrslan kemur út árlega og er ætíð gefin út á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars. Skýrslan ber heitið OMFIF Gender Balance Index 2021 og er þetta áttunda útgáfuár hennar.

Í grein sinni fjallar Rannveig um baráttu íslenskra kvenna undanfarna áratugi fyrir auknum réttindum og hvernig sú barátta og þróun jafnréttismála hefur haft áhrif víða í samfélaginu, s.s. á vinnumarkaði, í stjórnmálalífinu og innan opinberra stofnana. „Þessi árangur er orðinn hluti af íslenskri menningu og sjálfsmynd. Þetta hefur einnig áhrif á íslenska stofnanamenningu og þar er Seðlabanki Íslands ekki undanskilinn. Bankinn hefur notið ábatans af umbótunum og hefur unnið kerfisbundið að jafnrétti í eigin starfsemi,“ skrifar Rannveig meðal annars í greininni.

Grein Rannveigar má finna hér: „Equality as a cultural cornerstone“

Tveir þættir eru sérstaklega dregnir fram í umfjöllun um Seðlabanka Íslands. Þar er fjallað um styttingu vinnuvikunnar til að skapa jafnvægi á milli vinnu og einkalífs og einnig er fjallað um jafnlaunavottun sem bankinn hefur hlotið en Seðlabanki Íslands er eini seðlabankinn í úrtaki OMFIF þar sem launamunur kynjanna er konum í hag eða 1,6 prósent.

Til baka