logo-for-printing

19. apríl 2021

Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2021

Bygging Seðlabanka Íslands

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri tók þátt í vorfundi fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (International Monetary and Financial Committee, IMFC) fimmtudaginn 8. apríl síðastliðinn. Fundur fjárhagsnefndar var í þriðja sinn í röð fjarfundur vegna Covid-19-faraldursins. Fjármálaráðherra Svíþjóðar, Magdalena Andersson, er nýr formaður fjárhagsnefndarinnar og fulltrúi Norður- og Eystrasaltslanda í nefndinni var að þessu sinni Jan Tore Sanner, fjármálaráðherra Noregs.

Í yfirlýsingu fjárhagsnefndarinnar kom fram að alþjóðahagkerfið sækir nú hraðar í sig veðrið en búist var við í október síðastliðnum, m.a. vegna fordæmalausra efnahagsaðgerða og hraðrar framvindu í framleiðslu bóluefna. Á hinn bóginn er mikil óvissa í kortunum og þróun ólík innan og milli landa m.a. vegna mismikils rýmis til afgerandi stefnumótunar, efnahagslegra veikleika í sumum löndum og misjafns aðgangs að bóluefnum. Lögð var áhersla á alþjóðlegt samstarf á sviði framleiðslu og dreifingar á bóluefnum og lýst yfir stuðningi við ACT-A og Covax samstarfið á því sviði. Einnig var lögð áhersla á grænan efnahagsbata í kjölfar faraldursins.

Hér að neðan má finna tengla með efni frá vorfundinum:

Ályktun fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMFC Communiqué)
Stefnuyfirlýsing Kristalinu Georgievu, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (Global Policy Agenda, GPA)
Yfirlýsingar allra kjördæma í fjárhagsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMFC Statements)


Til baka