12. maí 2021
Könnun á væntingum markaðsaðila
Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila dagana 3. til 5. maí. Leitað var til 29 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 26 aðilum og var svarhlutfallið því 90%.Helstu niðurstöður
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að markaðsaðilar vænti þess að verðbólga verði að meðaltali 4,3% á yfirstandandi ársfjórðungi en hjaðni í kjölfarið og verði að meðaltali 3,6% á þriðja fjórðungi og 3,3% á fjórða fjórðungi. Þá vænta þeir þess að verðbólga hjaðni áfram á fyrri hluta næsta árs og verði 3% að ári liðnu. Það er meiri verðbólga en þeir bjuggust við í janúarkönnuninni en þá væntu markaðsaðilar þess að verðbólga næði hámarki sínu á fyrsta fjórðungi ársins í 3,7% en myndi hjaðna í kjölfarið og vera við 2,5% verðbólgumarkmið bankans á fyrsta fjórðungi næsta árs. Verðbólguvæntingar til tveggja, fimm og tíu ára eru hins vegar áfram í samræmi við markmið og óbreyttar frá síðustu könnun. Könnunin gefur til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi krónunnar hækki á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 145 krónur eftir eitt ár.
Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við því að meginvextir bankans verði áfram 0,75% á yfirstandandi fjórðungi en að þeir taki að hækka á seinni hluta ársins og verði 1% á þriðja fjórðungi og 1,25% fyrir lok ársins. Þá vænta þeir þess að meginvextir verði komnir í 1,5% eftir eitt ár og 1,75% að tveimur árum liðnum. Þetta eru hærri vextir en markaðsaðilar bjuggust við í könnun bankans í janúar sl. en þá væntu þeir þess að meginvextir yrðu 0,75% við lok þessa árs og 1% að tveimur árum liðnum.
Nokkur breyting varð á áliti markaðsaðila á taumhaldi peningastefnunnar frá því í síðustu könnun. Hlutfall svarenda sem telja taumhaldið of laust er nú 44% en það var 15% í janúar. Á móti telur nú enginn að taumhaldið sé of þétt en í síðustu könnun töldu 38% svarenda svo vera. Áfram telja þó flestir að taumhaldið sé hæfilegt um þessar mundir eða rétt rúmur helmingur þátttakenda í könnuninni.
Dreifing svara markaðsaðila um væntingar til verðbólgu var álíka mikil í þessari könnun og í síðustu könnun þegar horft var til næstu fjögurra fjórðunga en var ívið meiri þegar horft var til tveggja og fimm ára. Dreifing svara markaðsaðila um væntingar til vaxta var meiri en í síðustu könnun og þá sér í lagi heildardreifing svara en bil 1. og 3. fjórðungs jókst minna. Þá jókst einnig dreifing svara um gengishorfur milli kannana.
Til viðbótar voru markaðsaðilar spurðir um meginástæður þess að útlán til fyrirtækja hafi ekki verið meiri undanfarin misseri. Tveir af hverjum þremur svarendum telja að óvissa um efnahagshorfur og rekstrarskilyrði á næstu misserum séu helsta ástæða þess að fyrirtæki sæki sér ekki meira lánsfé. Þá telur þriðjungur svarenda að fyrirtæki skorti fjárfestingartækifæri eða hafi ekki þörf fyrir frekari fjárfestingu þar sem núverandi framleiðslugeta dugi til að anna eftirspurn. Að lokum telur rúmur fjórðungur að álag á útlánsvexti til fyrirtækja sé of hátt.
Sjá nánar: Könnun á væntingum markaðsaðila.