Reglur um hlutfall stöðugrar fjármögnunar lánastofnana
Í dag tóku gildi reglur Seðlabanka Íslands nr. 750/2021, um hlutfall stöðugrar fjármögnunar lánastofnana. Með reglunum er innleitt 100% heildarhlutfall fyrir stöðuga fjármögnun. Samhliða voru reglur nr. 1032/2014, um fjármögnunarhlutfall í erlendum gjaldmiðlum, felldar brott.
Með breytingum á reglugerð nr. 233/2017, um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja, sbr. reglur nr. 749/2021 sem tóku gildi í dag, hefur reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/876 (CRR II) verið innleidd. Í CRR II er m.a. kveðið í fyrsta skipti á um bindandi lágmarkskröfur um hlutfall stöðugrar fjármögnunar fyrir lánastofnanir. Í samræmi við 4. mgr. 83. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, setur Seðlabanki Íslands reglur um stöðuga fjármögnun þar sem heimilt er að kveða á um lágmark stöðugrar fjármögnunar í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum. Reglur Seðlabankans nr. 750/2021, um hlutfall stöðugrar fjármögnunar, byggja á ákvæðum CRR II er lúta að kröfum um stöðuga fjármögnun.
Reglurnar um hlutfall stöðugrar fjármögnunar miða að því að takmarka tímamisræmi á milli eigna og skulda lánastofnana og að hve miklu leyti lánastofnanir reiða sig á óstöðuga skammtímafjármögnun til að fjármagna langtímaeignir að þessu leyti. Undir gildissvið reglnanna falla allar lánastofnanir en ekki aðeins viðskiptabankar eins og samkvæmt eldri reglum nr. 1032/2014. Samkvæmt reglunum bera lánastofnanir skyldu til að skila skýrslum og viðhalda 100% hlutfalli stöðugrar fjármögnunar í öllum gjaldmiðlum samtals auk þess sem þær skulu hafa eftirlit með hlutfalli í einstökum gjaldmiðlum þar sem heildarskuldbindingar eru jafnar eða umfram 5% af heildarskuldum lánastofnunar (e. significant currency). Jafnframt bera lánastofnanir almenna skyldu samkvæmt reglunum til að tryggja að gjaldmiðlasamsetning fjármögnunar sé í samræmi við gjaldmiðlasamsetningu eigna þeirra. Þá er að finna heimild fyrir Seðlabankann til að krefjast þess að lánastofnanir lágmarki gjaldmiðlamisræmi með því að takmarka hlutfall nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar í tilteknum gjaldmiðli sem mæta má með tiltækri stöðugri fjármögnun í öðrum gjaldmiðli. Slíkar takmarkanir gilda aðeins fyrir reikningsskilagjaldmiðil eða gjaldmiðil yfir framangreindum viðmiðunarmörkum (e. significant currency) og kunna að vera settar með reglubreytingum eða í gegnum könnunar- og matsferli (SREP) lánastofnana.