logo-for-printing

30. júní 2021

Yfirlýsing fjármálaeftirlitsnefndar 30. júní 2021

Fulltrúar í fjármálaeftirlitsnefnd
Fulltrúar í fjármálaeftirlitsnefnd

Í yfirlýsingu fjármálaeftirlitsnefndar 13. janúar 2021 kom fram að mikil óvissa væri um þróun efnahagsmála næstu misseri og lögð var áhersla á að fjármálafyrirtæki sýndu fyllstu varfærni varðandi eiginfjárstöðu þeirra. Var þeim tilmælum beint til fjármálafyrirtækja að hafa tiltekin atriði að leiðarljósi við ákvarðanir um útgreiðslu arðs og kaup á eigin hlutabréfum. Skyldu tilmælin gilda til 30. september 2021. Jafnframt var brýnt fyrir vátryggingafélögum að gæta ýtrustu varfærni við stýringu eigin fjár vegna óvissunnar.

Nú lítur út fyrir að áhrif kórónuveirufaraldursins á fjármálafyrirtæki verði minni en óttast var í upphafi árs, m.a. vegna aðgerða stjórnvalda í efnahagsmálum. Staða kerfislega mikilvægu bankanna er sterk og eiginfjár- og lausafjárstaða þeirra vel yfir lögbundnum lágmörkum. Þá hafa þeir greiðan aðgang að lausu fé, bæði í krónum og erlendum gjaldmiðlum. Þeir búa því yfir verulegum viðnámsþrótti eins og fram kemur í riti Seðlabankans um Fjármálastöðugleika sem gefið var út í apríl sl.

Í því ljósi og með hliðsjón af yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar frá því í dag telur fjármálaeftirlitsnefnd rétt að fella brott tilmæli sín um arðgreiðslur fjármálafyrirtækja og kaup þeirra á eigin hlutabréfum. Nefndin brýnir þó fyrir fjármálafyrirtækjum, sem og vátryggingafélögum, að gæta áfram ýtrustu varfærni við ákvörðun um útgreiðslu arðs og gerð áætlana um kaup á eigin hlutabréfum.

Nr. 17/2021
30. júní 2021

Til baka