logo-for-printing

30. júní 2021

Yfirlýsing fjármálastöðugleikanefndar 30. júní 2021

Fjármálastöðugleikanefnd. Efri röð frá vinstri: Tómas Brynjólfsson, Bryndís Ásbjarnardóttir, Guðmundur Kristján Tómasson og Axel Hall. Neðri röð frá vinstri: Rannveig Sigurðardóttir, Ásgeir Jónsson, Gunnar Jakobsson og Unnur Gunnarsdóttir.
Fjármálastöðugleikanefnd. Efri röð frá vinstri: Tómas Brynjólfsson, Bryndís Ásbjarnardóttir, Guðmundur Kristján Tómasson og Axel Hall. Neðri röð frá vinstri: Rannveig Sigurðardóttir, Ásgeir Jónsson, Gunnar Jakobsson og Unnur Gunnarsdóttir.

Laust taumhald peninga- og þjóðhagsvarúðarstefnu og aðgerðir stjórnvalda hafa stutt við heimili og fyrirtæki á tímum farsóttarinnar. Á síðustu mánuðum hafa sést merki um kröftugan efnahagsbata og eignaverð hefur hækkað talsvert.

Staða stóru bankanna þriggja er sterk, eiginfjár- og lausafjárstaða þeirra er vel yfir lögbundnum lágmörkum. Bankarnir hafa greiðan aðgang að lausu fé bæði í krónum og erlendum gjaldmiðlum. Viðnámsþróttur þeirra er því mikill.

Nefndin samþykkti á fundi sínum að setja sérstakar reglur um afleiðuviðskipti á grundvelli nýrra laga um gjaldeyrismál. Reglurnar fela í sér einföldun og minni takmarkanir en áður var.

Þar sem hækkandi fasteignaverð hefur farið saman við aukna skuldsetningu heimila telur nefndin rétt við núverandi aðstæður að lækka hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda úr 85% í 80%. Hámarkshlutfall fyrir fyrstu kaupendur verður hins vegar óbreytt í 90%. Er það mat nefndarinnar að ofangreind aðgerð sé til þess fallin að vernda viðnámsþrótt lántaka og lánveitenda og vinna gegn aukningu kerfisáhættu.

Jafnframt hefur nefndin ákveðið að taka til nánari skoðunar beitingu greiðslubyrðarhlutfalls (e. debt service to income), samkvæmt 27. gr. laga nr. 118/2016, um fasteignalán til neytenda.

Nefndin hefur ákveðið að hækka ekki sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki að svo stöddu og er aukinn því óbreyttur í 0%. Nefndin telur þó líklegt að fyrr en síðar verði að taka til skoðunar að hækka aukann á nýjan leik.

Fjármálastöðugleikanefnd mun áfram beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika hér á landi.

Fylgiskjal: Bakgrunnur ákvörðunar um sveiflujöfnunarauka

Fylgiskjal: Kynning fjármálastöðugleikanefndar 30. júní 2021

Nr. 16/2021
30. júní 2021

 

Til baka