Seðlabanki Íslands setur reglur um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda
Í dag voru birtar í Stjórnartíðindum reglur Seðlabanka Íslands nr. 1077/2021 um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda sem samþykktar voru á fundi fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands 28. september sl. Reglurnar taka gildi 1. desember nk.
Tilgangur reglnanna er að varðveita fjármálastöðugleika, treysta viðnámsþrótt lánveitenda og neytenda gagnvart ójafnvægi á húsnæðismarkaði og takmarka uppsöfnun kerfisáhættu til lengri tíma litið.
Greiðslubyrði fasteignalána mælir það hlutfall mánaðarlegra ráðstöfunartekna neytanda sem fer í mánaðarlegar greiðslur vegna fasteignalána. Með greiðslubyrði er átt við allar afborganir og vaxtagreiðslur lána sem tryggð eru með veði í fasteign. Hlutfallið er reiknað sem mánaðarleg greiðslubyrði fasteignalána deilt með mánaðarlegum ráðstöfunartekjum.
Samkvæmt reglunum skal hámark greiðslubyrðar nýrra fasteignalána vera 35% af mánaðarlegum ráðstöfunartekjum neytenda. Hámarkshlutfall fyrir þá sem eru að kaupa fasteign í fyrsta sinn er 40%. Í reglunum er að finna reiknireglur um útreikning á hlutfalli greiðslubyrðar, m.a. er lánveitendum heimilt að miða lánstíma að hámarki við 40 ár fyrir óverðtryggð fasteignalán og við 30 ár fyrir verðtryggð fasteignalán.
Athygli er vakin á því að reglurnar gilda um samninga um fasteignalán sem gerðir eru eftir gildistöku þeirra.
Frétt nr. 23/2021
29. september 2021