Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2021
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri tók þátt í ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og tengdum fundum dagana 11. - 17. október 2021 sem fulltrúi Íslands í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (e. Board of Governors), æðstu stofnun sjóðsins. Seðlabankastjóri og Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, sátu fund fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (e. International Monetary and Financial Committee, IMFC) sem áheyrnarfulltrúar.
Seðlabankastjóri og aðrir fulltrúar bankans áttu einnig fundi með yfirstjórn og sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þátttaka í ársfundinum var að þessu sinni með blönduðu sniði. Flestir fulltrúar í fjárhagsnefnd mættu til fundarins í höfuðstöðvum sjóðsins í Washington en sendinefndir voru fámennar og flestir þátttakendur sóttu fundi í gegnum fjarfundabúnað.
Fjárhagsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins heldur fund tvisvar á ári þar sem sjóðurinn kynnir mat sitt á ástandi og horfum í heimsbúskapnum auk þess sem framkvæmdastjóri sjóðsins kynnir ráðgjöf hans varðandi alþjóðlega stefnumótun (e. Global Policy Agenda). Magdalena Andersson, fjármálaráðherra Svíþjóðar, fer nú fyrir fjárhagsnefndinni. Í ályktun nefndarinnar (e. IMFC Communiqué) kom fram að efnahagsbati haldi áfram á heimsvísu en að mikill munur sé á milli landa vegna mismunandi aðgangs að bóluefnum og rýmis til efnahagsaðgerða. Kallað var eftir alþjóðlegri samvinnu við að efla bólusetningu gegn COVID-19. Þá var lögð áhersla á umbætur til að auka viðnámsþrótt og sjálfbærni alþjóðahagkerfisins til lengri tíma. Fjárhagsnefndin lýsti jafnframt ánægju sinni með nýlega úthlutun sérstakra dráttarréttinda (SDR) og hvatti til að aukið fjármagn yrði nýtt til stuðnings lágtekju- og millitekjulöndum.
Fulltrúi kjördæmis Norður- og Eystrasaltslanda í fjárhagsnefndinni var að þessu sinni Lars Rohde, seðlabankastjóri í Danmörku. Í yfirlýsingu kjördæmisins (e. IMFC Statement) var lögð áhersla á að niðurlög faraldursins á heimsvísu væri forgangsmál á næstunni. Jafnframt væru loftslagsmál mikilvægasta áskorun okkar tíma og að setja þyrfti meiri kraft í aðgerðir á því sviði. Þá var lögð áhersla á mikilvægi sjálfbærrar skuldastöðu og gagnsæis um skuldamál ríkja.
Hér að neðan má finna tengla með efni frá ársfundinum:
Ályktun fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMFC Communiqué).
Yfirlýsing kjördæmis Norður- og Eystrasaltslanda í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMFC Statement).