logo-for-printing

10. nóvember 2021

Könnun á væntingum markaðsaðila

Bygging Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila dagana 1. til 3. nóvember. Leitað var til 29 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 25 aðilum og var svarhlutfallið því 86%.

Helstu niðurstöður
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að markaðsaðilar vænti þess að verðbólga verði að meðaltali 4,6% á yfirstandandi ársfjórðungi en hjaðni á næsta ári og verði að meðaltali 4,4% á fyrsta fjórðungi næsta árs og 3,8% á öðrum fjórðungi. Þá vænta þeir þess að verðbólga hjaðni áfram í kjölfarið og verði 3,3% að ári liðnu. Þetta er meiri verðbólga en markaðsaðilar væntu í ágústkönnuninni en þá gerðu þeir ráð fyrir að hún yrði að meðaltali 4% á yfirstandandi fjórðungi og að hún myndi minnka eftir það. Verðbólguvæntingar til tveggja ára eru nánast óbreyttar frá síðustu könnun og mælast 2,6%. Verðbólguvæntingar til tíu ára eru einnig áfram í samræmi við verðbólgumarkmið. Könnunin gefur til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi krónunnar hækki á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 143 krónur eftir eitt ár.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við því að meginvextir bankans verði áfram 1,5% í lok þessa árs en að þeir hækki um 0,5 prósentur á fyrsta fjórðungi næsta árs og um 0,25 prósentur til viðbótar á öðrum fjórðungi. Þá vænta þeir þess að meginvextir verði 2,5% eftir eitt ár og 3% að tveimur árum liðnum. Þetta eru hærri vextir en markaðsaðilar bjuggust við í könnun bankans í ágúst sl. en þá væntu þeir þess að meginvextir yrðu 2% eftir eitt ár og 2,25% að tveimur árum liðnum.

Nokkur breyting var á afstöðu svarenda til taumhalds peningastefnunnar og telja nú flestir þeirra eða 56% að taumhaldið sé of laust um þessar mundir en það hlutfall var 33% í ágúst. Á móti fækkar þeim sem telja taumhaldið hæfilegt og er hlutfall þeirra nú 44% samanborið við 67% í síðustu könnun. Áfram telur enginn svarenda í könnuninni að taumhaldið sé of þétt.

Dreifing svara markaðsaðila um væntingar til verðbólgu var meiri en í síðustu könnun þegar horft var til næstu þriggja ársfjórðunga en minni þegar horft var til eins, tveggja, fimm og tíu ára. Dreifing svara markaðsaðila um væntingar til vaxta var einnig meiri en í síðustu könnun þegar horft var til næstu fjórðunga. Jafnframt jókst dreifing svara um gengishorfur milli kannana, bæði þegar spurt var um gengi eftir eitt ár og eftir tvö ár.

Markaðsaðilar voru að þessu sinni spurðir að því hvaða þættir þeir telja að muni ráða mestu um þróun verðbólgu á næstu 12 mánuðum. Af þeim sem tóku afstöðu nefndu flestir alþjóðlega verðbólgu og hækkun fasteignaverðs sem helstu drifkrafta innlendrar verðbólgu á komandi misserum. Til viðbótar nefndi rúmur þriðjungur svarenda hrávöruverð og launaþróun en færri töldu að framboðshnökrar og aukinn flutningskostnaður hefðu teljandi áhrif. Þá nefndi helmingur svarenda að hærra gengi krónunnar myndi draga úr verðbólguþrýstingi á tímabilinu.

Sjá hér: Væntingar markaðsaðila á fjórða ársfjórðungi 2021


Til baka