Opnun lausafjárglugga og niðurfelling sérstakrar tímabundinnar lánafyrirgreiðslu vegna COVID
Á síðasta fundi sínum ákvað fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands að leggja til að bankinn opnaði lausafjárglugga sem mótaðilar í viðskiptum við bankann hafi aðgang að til að bregðast við óvæntri og tímabundinni lausafjárþörf sem gæti haft áhrif á fjármálastöðugleika. Því er ekki um að ræða hefðbundna lausafjárfyrirgreiðslu í peningapólitískum tilgangi.
Í samræmi við ákvörðun nefndarinnar verður mótaðilum heimilt frá og með 19. janúar að taka veðlán til 14 daga á vöxtum sem eru 0,5 prósentum hærri en vextir Seðlabankans á veðlánum til 7 daga. Vextir á lánum í lausafjárglugganum verða breytilegir og taka mið af vaxtastigi Seðlabankans hverju sinni. Hægt verður að sækja um lánin á miðvikudögum, vikulegum viðskiptadögum Seðlabankans. Mótaðilar Seðlabankans geta sótt um lán fyrir allt að 5 ma.kr. hver gegn tryggingum sem eru tilgreindir á veðlista bankans. Mótaðilum verður óheimilt að taka lán á sama tíma og þeir eiga bundin innlán í Seðlabankanum. Ekki verður hægt að sækja um nýtt lán fyrr en eldra lán hefur fallið á gjalddaga.
Samhliða opnun lausafjárglugga fellur úr gildi sérstök tímabundin lánafyrirgreiðsla í formi veðlána sem stofnað var til í upphafi Covid-faraldursins sbr. yfirlýsingar fjármálastöðugleikanefndar og peningastefnunefndar frá 8. apríl 2020. Þá verður ákvæði til bráðabirgða í reglum nr. 1200/2019, um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands sbr. reglur nr. 345/2020 sem sett var í tengslum við yfirlýsingarnar fellt úr gildi en samhliða eru gerðar breytingar á 10. gr. reglnanna um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir í viðskiptum við Seðlabankann. Áfram verður mögulegt að nota tiltekin lánasöfn sem tryggingar gegn frádragi ásamt öðrum veðum á veðlista Seðlabankans vegna veðlána í lausafjárglugga.
Nánari upplýsingar verða í skilmálum sem sendir verða til mótaðila Seðlabankans í viðskiptum.
Frétt nr. 1/2022,
14. janúar 2022