Áhrif hækkunar lífaldurs á lífeyrisréttindi
Á síðustu áratugum hefur lífaldur í hinum vestræna heimi hækkað samhliða tækniframförum og bættum lífsgæðum. Þessi jákvæða þróun hefur í för með sér margs konar samfélagslegar áskoranir sem m.a. tengjast lífeyriskerfinu. Brugðist hefur verið við hérlendis með takmörkuðum umbótum sem að nokkru leyti hafa tekið á hækkandi lífaldri landsmanna en margt er þó óunnið. Einkum vantar upp á að taka mið af því að umbætur geta ekki byggst á þeirri forsendu að hækkun lífaldurs verði sú sama í öllum þjóðfélagshópum. Málið er flóknara en það.
Munur í lífaldri mismunandi þjóðfélagshópa …
Í raun gildir ekki það sama um Jón og séra Jón þegar kemur að hækkun lífaldurs. Þetta á bæði við hér á Íslandi og erlendis (varðandi erlendan samanburð, sjá t.a.m. Chetty o.fl., 2016). Skýrt dæmi er sýnt á mynd 1. Þar er lifunarhlutfall, þ.e. líkurnar á að ná ákveðnum aldri, sýnt fyrir mismunandi menntunarstig. Mun á væntum lífaldri þjóðfélagshópa er einnig unnt að sjá eftir kyni, tekjum og jafnvel eftir búsetu, sjá mynd 2.
Eins og sjá má af mynd 1 gefa lifunarhlutföll þeirra sem eru meira menntaðir til kynna lengri ævilengd en þeirra sem hafa lokið styttri skólagöngu. Um 95% háskólamenntaðra ná 65 ára aldri en aðeins 88% þeirra sem eru einungis grunnskólagengnir (Jón Ævar Pálmason, 2016). Myndin sýnir einnig að þessi munur í lífslíkum helst yfir alla ævina og útskýrist ekki einvörðungu af lengra æviskeiði í hárri elli. Munur í væntum lífaldri landsmanna eftir þjóðfélagshópum var umfjöllunarefni Spegilsins á RÚV nýlega og hefur m.a. verið fjallað um hann í Læknablaðinu (Einar Þór Þórarinsson o.fl., 2000). Skýrsla OECD um heilsufar og samfélagsstöðu bendir einnig til þess að munur á heilsufari milli tekju- og menntunarstiga sé ívið meiri hér á landi en á öðrum Norðurlöndunum (OECD, 2019). Af mynd 2 má sjá að væntur lífaldur er breytilegur eftir landshlutum en það gæti skýrst af mismunandi samsetningu íbúa innan hvers landshluta. Til að mynda er hlutfall íbúa af erlendu bergi brotnu hátt á Suðurnesjum í samanburði við landsmeðaltal.
… hefur aukist síðustu ár …
Líkt og víða í hinum vestræna heimi hefur mismunur í lífaldri ólíkra menntunarhópa aukist á Íslandi síðustu ár eins og sjá má á myndum 3 og 4. Væntur lífaldur karla við 30 ára aldur með háskólapróf hækkaði um 1,4 ár milli 2011 og 2020 en á sama tíma hækkaði væntur lífaldur grunnskólamenntaðra aðeins um 0,6 ár. Hækkun lífaldurs er því rúmlega tvöfalt meiri hjá þeim háskólamenntuðu. Þessi þróun er enn meira afgerandi hjá konum. Lífaldur háskólamenntaðra kvenna hækkaði um 1,1 ár á þessu tíu ára tímabili en lífaldur kvenna með grunnskólamenntun dróst saman um 0,2 ár. Þessi sláandi þróun gæti skýrst af breytingu í innri samsetningu hóps grunnskólamenntaðra kvenna því menntunarstig hefur almennt aukist á tímabilinu. Þessi þróun endurspeglast í erlendum gögnum en væntur lífaldur Bandaríkjamanna sem ekki eru með háskólapróf hefur dregist saman jafnt og þétt frá árinu 2010 (Case og Deaton, 2021).
… sem hefur áhrif á lífeyrisgreiðslur …
Um efnahagsleg áhrif þessarar þróunar hefur nýlega verið fjallað í fræðiritinu Economica af höfundi þessarar greinar og fleiri. Greinin sem ber heitið Longevity, Retirement and Intra-Generational Inequality (Jensen o.fl., 2020) fjallar um afleiðingar þess þegar lífeyrissjóðir líta einvörðungu til meðaltals vænts lífaldurs félagsmanna en líta fram hjá því að lífaldur þeirra er í raun breytilegur eftir þjóðfélagsstöðu. Greiningin byggir á kynslóðalíkani (e. overlapping generations model) þar sem lífslíkur einstaklinga herma raunveruleg lífslíkindaföll (Boucekkine o.fl., 2002). Félagsmenn greiða fast hlutfall af tekjum í iðgjöld og fá hlutfall af tekjum sínum greitt út í lífeyri ævilangt eftir að lífeyristökualdri er náð. Hér að neðan eru dregnir fram fjórir þættir sem skýra hvernig lífeyrisgreiðslur hvers mánaðar til þeirra sem hafa lægri væntan lífaldur skerðast við að greiða í sjóð með þeim sem lifa alla jafna lengur.
Í fyrsta lagi skiptir máli fyrir umfang bjögunar í lífeyrisgreiðslum hversu breitt bilið í lífaldri er milli sjóðsfélaga. Þegar bilið breikkar, eins og þróunin hefur verið á Íslandi síðustu ár, greiða þeir sem hafa lægri væntan lífaldur hærri iðgjöld í hlutfalli við lífeyrinn sem þeir geta vænst í hverjum mánuði eftir að lífeyristökualdri er náð. Að sama skapi geta þeir sem lifa alla jafna lengur vænst meiri lífeyris fyrir hverja iðgjaldakrónu, á kostnað þeirra sem hafa lægri væntan lífaldur.
Í öðru lagi fer stærðargráða þessara skerðinga eftir lífeyristökualdrinum. Því hærri sem hann er því meiri verður skekkjan í lífeyrisgreiðslum til félagsmanna. Þegar lífeyristökualdurinn hækkar hefur það meiri áhrif á hlutfall ævinnar sem þeir sem hafa lægri væntan lífaldur verja sem iðgjaldagreiðendur í samanburði við þá hafa hærri væntan lífaldur. Þeir sem lifa alla jafna skemur greiða því lengur í sjóðinn á sama tíma og þeir geta vænt þess að fá lífeyri í skemmri tíma en aðrir félagsmenn, sem hlutfall af ævilengd.
Í þriðja lagi skiptir stærð þjóðfélagshópanna máli. Eftir því sem sjóðsfélögum með háan væntan lífaldur fjölgar fá fleiri hlutfallslega meira úr lífeyriskerfinu en þeir greiða inn. Þetta leiðir til þess að greiðslur til annarra sjóðsfélaga dragast saman. Þetta er áhugavert í ljósi þess að menntun hefur aukist í samfélaginu og þeir sem eru meira menntaðir lifa lengur. Þeir sem sitja eftir eru þeir sem eru minna menntaðir og fá þess vegna skertar greiðslur úr lífeyrissjóði.
Í fjórða lagi skiptir tekjudreifingin máli, því iðgjöld eru hlutfall af tekjum. Ef tekjur þeirra sem lifa að jafnaði lengur hækka, þá greiða þeir vissulega hærri iðgjöld í sjóðinn en á móti verður til skuldbinding hjá sjóðnum til að greiða út hærri lífeyri síðar. Þar sem þeir tekjuháu lifa lengur en meðalsjóðsfélagi vegur þessi skuldbinding þyngra en samsvarandi hækkun iðgjalda. Þetta hefur í för með sér að nauðsynlegt er að lækka lífeyrisgreiðslur til allra sjóðsfélaga, því allir fá greitt sama hlutfall af tekjum. Þar með skerðist lífeyrir þeirra sem hafa lægri væntan lífaldur við það eitt að tekjur þeirra sem lifa að jafnaði lengur hækka.
Af framangreindum niðurstöðum rannsóknarinnar mætti ráða að þeir sem eru eingöngu með grunnskólamenntun beri skarðan hlut frá borði úr lífeyriskerfinu, að því gefnu að þeir greiði í sjóð með þeim sem eru með meiri menntun. Ástæða þess er að bilið á milli vænts lífaldurs mismunandi menntunarhópa breikkar og yrðu áhrif þess á lífeyrisgreiðslur meiri ef lífeyristökualdur er hækkaður. Þá fer háskólamenntuðum fjölgandi og til að bæta gráu ofan á svart þá eru tekjur þeirra hærri sem eykur skekkjuna enn frekar.
… en umbætur á lífeyriskerfinu gætu jafnað stöðuna
Í íslenska samtryggingarkerfinu eru innbyggðir tveir mikilvægir áhrifaþættir sem vega að hluta til á móti þessari bjögun. Annars vegar byggja margir lífeyrissjóðir á starfsstéttum þar sem langlífi sjóðsfélaga er líklega svipað. Undantekning á þessu gætu verið svæðisbundnu sjóðirnir, sjóðir opinberra starfsmanna og frjálsu sjóðirnir. Hins vegar er hætta á örorku og lífslíkur eftir örorku metin fyrir hvern sjóð fyrir sig sem felur í raun í sér leiðréttingu fyrir hluta af misdreifingu langlífis innan hvers sjóðs. Einnig er gott að hafa í huga í þessu samhengi að almannatryggingakerfið er líklegra til þess að grípa fólk með lægri tekjur, sem lifir alla jafna skemur. Íslenska kerfið í heild gæti þó sannarlega gengið lengra í að taka tillit til mismunandi vænts lífaldurs landsmanna, t.d. með umbótum í samtryggingardeildum lífeyrissjóða eða almannatryggingum.
Þessi skekkja er auðvitað ekki eingöngu bundin við íslenska lífeyrissjóðakerfið. Nýlega hefur t.d. danska almannatryggingakerfið verið bætt í því skyni að leiðrétta þennan mismun. Frá áramótum 2022 geta þeir Danir sem hafa unnið líkamlega strembna vinnu og fóru ungir út á vinnumarkað farið fyrr á eftirlaun (sjá hér: vefur danska atvinnuvegaráðuneytisins og hér: vefur Politiken). Þetta er einmitt sá hópur sem hefur lægri væntan lífaldur en Danir hafa að meðaltali. Áhugavert verður að fylgjast með umræðunni á Íslandi þegar reynsla verður komin á dönsku umbæturnar.
Höfundur: Þorsteinn Sigurður Sveinsson, hagfræðingur á sviði hagfræði og peningastefnu hjá Seðlabanka Íslands.
Heimildir:
Boucekkine, R., de la Croix, D. og Licandro, O. (2002). Vintage human capital, demographic trends, and endogenous growth. Journal of Economic Theory, 104, 340–75.
Chetty, R., Stepner, M., Abraham, S., Lin, S., Scuderi, B., Turner, N., Bergeron, A. og Cutler, D. (2016). The association between income and life expectancy in the United States, 2001–2014. Journal of the American Medical Association, 315(16), 1750–66.
Einar Þór Þórarinsson, Þórður Harðarson, Rúnar Vilhjálmsson, Helgi Sigvaldason og Nikulás Sigfússon (2000). In search for explanatory factors in the relationship between educational level and mortality. Læknablaðið, 86: 91-101.
Jensen, S. H., Sveinsson, T. S. og Zoega, G. (2020). Longevity Adjustment of Retirement Age and Intragenerational Inequality. Economica, 88, 339-363.
Jón Ævar Pálmason (2016). Lífslíkur eftir þjóðfélagsstöðu. Fjármál, vefrit FME
Jón Ævar Pálmason (2014). Lífslíkur eftir landshlutum. Actuary.is.