Aðilar er stunda gjaldeyrisskipti eru skráningarskyldir
Gjaldeyrisskiptastöð er skilgreind sem starfsemi þar sem í atvinnuskyni fara fram kaup og sala innlends og erlends gjaldeyris.
Að gefnu tilefni er vakin athygli á því að gjaldeyrisskiptastöðvar eru skráningarskyldar hjá Seðlabanka Íslands, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, að undanskildum þeim aðilum sem uppfylla öll skilyrði sem fram koma í i-lið 1. mgr. 2. gr. laganna, þ.e.:
- að gjaldeyrisskiptin séu hliðarstarfsemi sem tengist með beinum hætti meginstarfsemi aðilans og sé aðeins veitt viðskiptavinum aðilans,
- að heildarvelta af gjaldeyrisskiptum nemi minna en 5 milljónum króna á ári, og
- að gjaldeyrisskipti fyrir einstakan viðskiptavin fari ekki yfir 100 þúsund krónur, hvort sem er í einni færslu eða fleiri færslum sem virðast tengjast hver annarri.
Uppfylli aðili sem skiptir gjaldeyri fyrir viðskiptavini sína ekki öll ofangreind skilyrði undanþágunnar ber viðkomandi að sækja um skráningu skv. 1. mgr. 35. gr. laganna. Þannig þurfa aðilar sem hafa aðra starfsemi sem aðalstarfsemi en veita gjaldeyrisskiptaþjónustu í tengslum við hana, s.s. hótel sem býður gestum sínum upp á að skipta gjaldeyri gegn þóknun eða verslanir sem við sölu á vöru taka við greiðslu í erlendum gjaldmiðli en gefa til baka í íslenskum krónum, að færa sönnur fyrir því að öll ofangreind skilyrði undanþágunnar séu uppfyllt.
Nánari upplýsingar um skráningu gjaldeyrisskiptastöðva er að finna á vefsíðu Seðlabanka Íslands.
Seðlabanki Íslands fer með eftirlit með því hvort skráningarskyld starfsemi skv. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 140/2018 sé stunduð án leyfis. Seðlabanki Íslands hefur heimild til þess að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem starfar sem gjaldeyrisskiptastöð án skráningar, sbr. 21. töluliður 1. mgr. 46. gr. laganna.