Reglur um hámark veðsetningarhlutfalls og greiðslubyrðar fasteignalána
Í dag voru birtar í Stjórnartíðindum reglur Seðlabanka Íslands nr. 702/2022 um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda, og reglur nr. 701/2022 um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda. Reglurnar voru samþykktar á fundi fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands 14. þessa mánaðar og taka gildi á morgun, 16. júní 2022. Samhliða eru reglur nr. 778/2021, um hámark veðsetningarhlutfalls til neytenda, og reglur nr. 1268/2021, um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda, felldar úr gildi.
Með nýjum reglum um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda er hámark veðsetningarhlutfalls fyrstu kaupenda lækkað úr 90% í 85% af markaðsverði fasteignar. Í nýjum reglum um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda er sett viðmið um lágmarksvexti við útreikning hámarks greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda. Við útreikning skal framvegis miða við hærri vexti af eftirfarandi; samningsvexti eða tiltekna lágmarksvexti samkvæmt reglunum, þ.e. 5,5% vexti fyrir óverðtryggð lán og 3% vexti fyrir verðtryggð lán. Einnig er gerð breyting á hámarki lánstíma við útreikning á greiðslubyrðarhlutfalli fyrir verðtryggð lán.
Athygli er vakin á því að reglurnar gilda um samninga um fasteignalán sem eru gerðir eftir gildistöku þeirra.
Frétt nr. 14/2022
15. júní 2022
Sjá hér:
Reglur um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda, nr. 701/2022
Reglur um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda, nr. 702/2022