Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar 13. - 14. júní 2022
Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands hefur verið birt hér á vef Seðlabankans. Nefndin ræddi stöðu og horfur fyrir fjármálastöðugleika og helstu áhættuþætti, svo sem þróun efnahagsmála, áhættu fjármálafyrirtækja og fjármálakerfis, þróun á innlendum fjármálamörkuðum, skuldsetningu heimila og fyrirtækja, stöðuna á fasteignamarkaði og eiginfjárstöðu fjármálafyrirtækja. Jafnframt ræddi nefndin um öryggi og skilvirkni fjármálainnviða og mikilvægi þeirra fyrir stöðugleika fjármálakerfisins. Nefndin fékk upplýsingar um skilaáætlanir fyrir kerfislega mikilvæga banka og um gerð opinberrar stefnu um fjármálastöðugleika sem Fjármálastöðugleikaráð vinnur að.
Fjármálastöðugleikanefnd ákvað að lækka hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána fyrir fyrstu kaupendur úr 90% í 85% en að halda hlutfallinu fyrir aðra kaupendur óbreyttu í 80%. Nefndin ákvað jafnframt að setja viðmið um vexti við útreikning greiðslubyrðar í reglum um hámark greiðslubyrðar fasteignalána til neytenda. Viðmiðið er að lágmarki 3% fyrir vexti verðtryggðra íbúðalána og 5,5% fyrir vexti óverðtryggðra íbúðalána. Nefndin ákvað jafnframt að stytta hámarkslánstíma við útreikning greiðslubyrðar fyrir verðtryggð lán og miða þar við 25 ár. Fjármálastöðugleikanefnd ákvað við ársfjórðungslegt endurmat á sveiflujöfnunaraukanum að halda gildi hans óbreyttu en samkvæmt ákvörðun nefndarinnar í september sl. mun hann hækka úr 0% í 2% í lok september 2022.
Þá áréttaði nefndin mikilvægi þess að auka öryggi í innlendri greiðslumiðlun og hraða innleiðingu óháðrar smágreiðslulausnar.
Sjá fundargerðina í heild hér: Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands. Fundur 13. -14. júní 2022 (13.fundur). Birt 1. júlí 2022.