logo-for-printing

04. janúar 2023

Breytingar á reglum um viðskiptareikninga við Seðlabanka Íslands

Reglum nr. 18/2022 um viðskiptareikninga við Seðlabanka Íslands hefur verið breytt og þær endurútgefnar undir nýju heiti sem reglur nr. 1644/2022, um viðskiptareikninga og vaxtalausa reikninga við Seðlabanka Íslands. Breytingarnar lúta einkum að heimild lánafyrirtækja til að stofna vaxtalausa reikninga hjá Seðlabankanum. Þá hafa einnig verið gerðar breytingar á ákvæðum um lokun viðskiptareikninga hjá bankanum auk orðalagsbreytinga til samræmis aðrar reglur sem gilda um viðskipti Seðlabanka Íslands sem ekki fela í sér efnisbreytingar.

 

Nýtt ákvæði um vaxtalausa reikninga

Í nýjum reglum um viðskiptareikninga er að finna sérstakt ákvæði um stofnun vaxtalausra reikninga hjá Seðlabankanum. Stofnun slíkra reikninga er í meginatriðum einungis í boði fyrir lánafyrirtæki og útibú sambærilegra lánafyrirtækja innan EES sem ekki hafa ekki heimild til þess að stofna viðskiptareikninga hjá Seðlabankanum samkvæmt reglunum. Stofnun og notkun vaxtalauss reiknings hjá Seðlabanka Íslands er háð því skilyrði að hún samrýmist markmiðum og verkefnum Seðlabankans og að slíkur reikningur sé nauðsynlegur fyrir starfsemi fjármálafyrirtækisins að mati Seðlabankans. Þannig er stofnun vaxtalauss reiknings að miklu leyti háð sömu skilyrðum og stofnun og notkun viðskiptareikninga. Þó eru ekki sett skilyrði um að reikningshafi sé virkur þátttakandi í miðlun peningastefnu Seðlabankans eða þurfi að uppfylla skilyrði um hámarkshlutfall innlána viðskiptavina sem heimilt er að hafa á reikningi hjá Seðlabankanum. Þá er Seðlabankanum heimilt að setja nánari skilyrði um stofnun og notkun vaxtalausra reikninga, s.s. um hámarksfjárhæð innstæðna á slíkum reikningum.

 

Ný ákvæði um stofnun vaxtalauss reiknings í kjölfar lokunar viðskiptareiknings

Í tengslum við framangreinda breytingu er bætt við ákvæði um framkvæmd lokunar viðskiptareikninga hjá Seðlabankanum. Breytingin felst í heimild Seðlabankans til þess að færa innstæðu á viðskiptareikningi fjármálafyrirtækis yfir á vaxtalausan reikning í nafni viðkomandi fjármálafyrirtækis þegar viðskiptareikningi er lokað, s.s. í þeim tilvikum þegar skilyrði fyrir stofnun og notkun viðskiptareiknings eru ekki virt.

Frétt nr. 1/2023,
4. janúar 2023

Til baka