Breytingar á reglum um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár
Reglum nr. 877/2018 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár hefur verið breytt og þær endurútgefnar undir sama heiti sem reglur nr. 218/2023. Reglurnar voru birtar á vef Stjórnartíðinda í dag en þær munu taka gildi 1. júní 2023.
Afnám ákvæða um binditíma verðtryggðra innlána og lánstíma verðtryggðra útlána
Þær breytingar sem reglur nr. 218/2023 kveða á um felast fyrst og fremst í því að með gildistöku þeirra verða afnumin ákvæði gildandi reglna um binditíma verðtryggðra innlána og lánstíma verðtryggðra útlána. Samkvæmt 2. gr. gildandi reglna nr. 877/2018 er lánastofnunum aðeins heimilt að taka á móti sparifé gegn verðtryggingu að innstæða sé bundin í 36 mánuði að lágmarki, að frátöldum nánar tilgreindum undantekningartilvikum. Þá kveður 1. mgr. 3. gr. gildandi reglna á um að verðtrygging láns sé aðeins heimil að lánið sé til 5 ára hið minnsta, en 4. mgr. sömu greinar veitir undanþágu að því er varðar verðtryggð ríkisverðbréf. Að mati Seðlabankans eiga þau rök sem upphaflega lágu að baki slíkum binditíma verðtryggðra innlána og lánstíma verðtryggðra útlána ekki lengur við og taka nýjar reglur Seðlabankans um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár mið af því.
Við gildistöku reglna nr. 218/2023 fellur þannig brott 2. gr. núgildandi reglna, um binditíma verðtryggðra innlána og undantekningar frá þeim binditíma í nánar tilgreindum tilvikum. Þá eru einnig felld brott ákvæði 1. mgr. og 4. mgr. 3. gr. núgildandi reglna, um lánstíma verðtryggðra lána og undantekningu frá slíkum lágmarkstíma vegna verðtryggðra ríkisverðbréfa.
Aðrar breytingar
Til viðbótar við framangreindar breytingar hefur einnig verið skerpt á orðalagi 3. gr. núgildandi reglna, sbr. 2. gr. reglna nr. 218/2023, og það skýrt nánar.
Loks hefur verið felld brott 4. gr. núgildandi reglna, um heimild til þess að miða við hlutabréfavísitölu í lánssamningi þegar ekki er um að ræða neytendalán eða fasteignalán til neytenda. Er það m.a. gert með hliðsjón af því að ákvæði sama efnis er að finna í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Ekki er því um að ræða takmörkun á þeirri heimild.
Hér má finna reglur nr. 218/2023.
Frétt nr. 7/2023
7. mars 2023