logo-for-printing

22. mars 2023

Yfirlýsing peningastefnunefndar 22. mars 2023

Peningastefnunefnd. Á myndinni eru sitjandi frá vinstri Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður nefndarinnar, Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu. Standandi frá vinstri eru Ásgerður Ósk Pétursdóttir, lektor í hagfræði við háskólann í Bath í Englandi,  Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og Herdís Steingrímsdóttir, dósent í hagfræði við Copenhagen Business School í Kaupmannahöfn.
Peningastefnunefnd. Á myndinni eru sitjandi frá vinstri Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður nefndarinnar, Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu. Standandi frá vinstri eru Ásgerður Ósk Pétursdóttir, lektor í hagfræði við háskólann í Bath í Englandi, Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og Herdís Steingrímsdóttir, dósent í hagfræði við Copenhagen Business School í Kaupmannahöfn.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 1 prósentu. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 7,5%.

Verðbólguþrýstingur heldur áfram að aukast og verðhækkanir ná til æ fleiri þátta. Verðbólga mælist nú 10,2% og undirliggjandi verðbólga er 7,2%. Verðbólguvæntingar til lengri tíma eru enn vel yfir markmiði og raunvextir bankans hafa lækkað frá síðasta fundi nefndarinnar. Útlit er fyrir að verðbólga verði meiri á næstunni en spáð var í febrúar þótt hægt hafi á húsnæðismarkaði.

Hagvöxtur var mikill í fyrra og vel umfram það sem þjóðarbúskapurinn getur staðið undir til lengdar. Innlend eftirspurn jókst meira en gert var ráð fyrir í febrúar og vísbendingar eru um að hún hafi verið kröftugri í ársbyrjun en talið var. Spenna á vinnumarkaði er jafnframt töluverð.

Við þessar aðstæður er mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags, sérstaklega þegar litið er til mikillar spennu í þjóðarbúinu og komandi kjarasamninga. Peningastefnunefnd mun beita tækjum sínum til að tryggja betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og koma verðbólgu í markmið.

 

Frétt nr. 9/2023
22. mars 2023

Vextir verða því sem hér segir:
1. Daglán 9,25%
2. Lán gegn veði til 7 daga 8,25%
3. Innlán bundin í 7 daga 7,50%
4. Viðskiptareikningar 7,25%

 

Sjá hér: Vextir og bindiskylda við Seðlabanka Íslands 22. mars 2023.
Til baka