Reglur um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána
Í dag voru birtar í Stjórnartíðindum nýjar reglur Seðlabanka Íslands nr. 550/2023 um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda. Reglurnar voru samþykktar á fundi fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands 6. þessa mánaðar og taka gildi á morgun, 8. júní 2023.
Með hinum nýju reglum hefur fyrstu grein reglnanna verið breytt til áréttingar á því að reglurnar gilda ekki um samninga um fasteignalán, sem ráðstafað er að fullu til uppgreiðslu eldra fasteignaláns eða lána vegna greiðsluerfiðleika neytenda, sem kunna að hækka höfuðstól láns. Þannig er skýrt að reglurnar koma ekki í veg fyrir að lánveitendur aðstoði lántakendur í greiðsluerfiðleikum, t.d. með því að fresta tímabundið greiðslum og bæta vanskilum við höfuðstól, hvort sem það er gert með skilmálabreytingu eða endurfjármögnun fasteignaláns.
Sjá einnig hér á vef Stjórnartíðinda: Reglur um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda, nr. 550/2023.