Reglubundinni umræðu um Ísland lokið í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
Miðvikudaginn 14. þessa mánaðar fór fram árleg umræða í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um stöðu og horfur í efnahagsmálum á Íslandi samkvæmt fjórðu grein stofnsáttmála um sjóðinn (e. Article IV Consultation). Þá var einnig til umræðu heildstæð úttekt sjóðsins á íslenska fjármálakerfinu (e. Financial Sector Assessment Program (FSAP)). Sú úttekt er valkvæð í tilviki Íslands en skyldubundin fyrir lönd með kerfislega mikilvæg fjármálakerfi á alþjóðavísu.
Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins átti fundi með íslenskum stjórnvöldum og ýmsum hagaðilum nú í vor vegna fjórðu greinar stofnsáttmálans. Þá átti FSAP-sendinefnd sjóðsins fundi með stjórnvöldum og hagaðilum undir lok árs 2022 og aftur í mars 2023 vegna úttektar á fjármálakerfinu. Úttektin stóð yfir meginhluta vetrarins og fól m.a. í sér ýmsar gagnabeiðnir og svörun spurningalista. Tilgangur úttektarinnar var að kanna viðnámsþrótt fjármálakerfisins, gæði reglusetningar og eftirlits og burði landsins til að takast á við fjármálaáföll.
Skýrslur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Ísland voru birtar í dag á heimasíðu sjóðsins, sjá hér fyrir neðan:
Úttekt á fjármálakerfinu á Íslandi (Financial Sector Assessment Program).
Sjá hér einnig eldri frétt: Árlegum viðræðum sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við íslensk stjórnvöld og aðra hagaðila lokið
Sjá hér skýrslur um Ísland og fleira: Country Reports - Iceland