logo-for-printing

12. júlí 2023

Ný lög um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar

Bygging Seðlabanka Íslands

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur sent dreifibréf til aðila á fjármálamarkaði, fjármálaráðgjafa og lífeyrissjóða er veita lágmarkstryggingavernd er varðar nýsamþykkt lög frá Alþingi nr. 25/2023 um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar sem tóku gildi 1. júní síðastliðinn.

Í dreifibréfinu kemur meðal annars fram að með lögunum eru lögfest ákvæði reglugerða Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2088 um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og (ESB) 2020/852 um að koma á ramma til að greiða fyrir sjálfbærri fjárfestingu. Um er að ræða nýja heildarlöggjöf um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar. Með lögunum eru jafnframt gerðar breytingar á lögum nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og lögum nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.

Seðlabankinn beinir því til aðila á fjármálamarkaði, fjármálaráðgjafa, lífeyrissjóða sem veita lágmarkstryggingavernd og annarra aðila að kynna sér með hvaða hætti lögin snerta starfsemi þeirra.

Sjá nánar: Dreifibréf til eftirlitsskyldra aðila um ný lög um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar. 

Fjármálaeftirlitið bendir aðilum jafnframt á að ESMA kallar um þessar mundir eftir upplýsingum og sjónarmiðum markaðsaðila og annarra haghafa í tengslum við beitingu reglna um sjálfbærniþætti í MiFID2. Tilgangur þess er meðal annars að fá innsýn í beitingu ákvæða varðandi sjálfbærniþætti og hvaða áskorunum eftirlitsskyldir aðilar standa frammi fyrir.


Til baka

Myndir með frétt