logo-for-printing

17. júlí 2023

Nýjar reglur Seðlabanka Íslands nr. 510/2023 um samningu og miðlun lykilupplýsingaskjala fyrir almenna fjárfesta

Bygging Seðlabanka Íslands

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur sent dreifibréf til aðila sem bjóða upp á pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir og/eða viðbótartryggingavernd er varðar reglur Seðlabankans nr. 510/2023, um samningu og miðlun lykilupplýsingaskjala fyrir almenna fjárfesta, sem tóku gildi 26. maí sl.

Í dreifibréfinu kemur m.a. fram að reglurnar, sem innleiða undirgerðir PRIIPs í íslenskan rétt, gildi um framleiðendur og aðila sem veita ráðgjöf um eða selji pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjár-festa og aðila sem bjóði upp á viðbótartryggingavernd skv. II. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. 3.–5. mgr. 8. gr. þeirra laga. Með nýjum reglum er innleidd reglugerð (ESB) 2021/2268 sem breytti framkvæmdarreglugerð (ESB) 2017/653, einkum m.t.t. útfærslu á þeim kröfum sem fyrrgreindum aðilum ber nú að taka mið af við samningu og miðlun lykilupplýsingaskjala til almennra fjárfesta.

Sérstök athygli er vakin á því í dreifibréfinu að reglurnar gildi nú einnig um rekstrarfélög verðbréfasjóða skv. lögum nr. 116/2021 um verðbréfasjóði, rekstraraðila sem markaðssetji sérhæfða sjóði til almennra fjárfesta skv. X. kafla laga nr. 45/2020 um rekstraraðila sérhæfðra sjóða og aðila sem veiti ráðgjöf um eða selji hluti og/eða hlutdeildarskírteini verðbréfasjóðs eða sérhæfðs sjóðs fyrir almenna fjárfesta skv. sama kafla þar sem tímabundin undanþága til þessara aðila frá gildissviði laga nr. 55/2021 rann úr gildi 31. desember 2022, sbr. 2. mgr. 18. gr. sömu laga. Beri framangreindum aðilum því nú að semja og miðla lykilupplýsingaskjölum til almennra fjárfesta á grundvelli laga nr. 55/2021.

Sjá nánar:
Dreifibréf til aðila sem bjóða upp á pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir og/eða viðbótartryggingavernd um reglur Seðlabankans nr. 510/2023, um samningu og miðlun lykilupplýsingaskjala fyrir almenna fjárfesta.


Til baka