16. ágúst 2023
Könnun á væntingum markaðsaðila
Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila dagana 8. til 10. ágúst sl. Leitað var til 38 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana, fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar og tryggingafélaga. Svör fengust frá 27 aðilum og var svarhlutfallið því 71%.Helstu niðurstöður
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að markaðsaðilar vænti þess að verðbólga verði að meðaltali 7,8% á þriðja fjórðungi þessa árs. Þeir gera ráð fyrir að verðbólga hjaðni á komandi misserum og verði 5,6% eftir eitt ár en í síðustu könnun væntu þeir þess að verðbólga yrði 6,3% að ári liðnu. Verðbólguvæntingar til tveggja og fimm ára voru 4,5% og 4% og voru óbreyttar milli kannana. Langtímaverðbólguvæntingar hækkuðu lítillega og búast markaðsaðilar við að verðbólga verði að meðaltali 3,6% á næstu tíu árum en 3,5% í síðustu könnun. Könnunin gefur til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi krónunnar breytist lítið á næstunni og að gengi evru gagnvart krónu verði 145 krónur eftir eitt ár.
Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við því að meginvextir verði hækkaðir um 0,25 prósentur á yfirstandandi fjórðungi og verði þá 9%. Í síðustu könnun bankans í maí sl. bjuggust þeir við því að meginvextir næðu hámarki í 8,5% á öðrum ársfjórðungi. Þá búast þeir við því að meginvextir taki að lækka á fyrsta fjórðungi næsta árs og verði 7,75% eftir eitt ár. Það eru lægri vextir en markaðsaðilar bjuggust við í síðustu könnun en væntingar þeirra um meginvexti eftir tvö ár eru óbreyttar í 6%.
Eftir hækkun vaxta Seðlabankans í maí hefur töluverð breyting orðið á afstöðu svarenda til taumhalds peningastefnunnar. Flestir töldu að taumhaldið væri hæfilegt um þessar mundir eða 44% svarenda en hlutfallið var 17% í síðustu könnun. Á móti fækkaði þeim sem töldu taumhaldið of laust í 30% samanborið við 66% í síðustu könnun en hlutfall þeirra sem taldi taumhaldið of þétt jókst í 26% úr 17%.
Dreifni svara markaðsaðila um væntingar til verðbólgu eftir fjóra ársfjórðunga, eftir 1 ár og næstu 5 ár minnkaði frá síðustu könnun en hún var nánast óbreytt þegar horft er til annarra tímalengda. Dreifni svara um væntingar til vaxta breyttist lítið milli kannana fyrir væntingar eftir einn, tvo og þrjá ársfjórðunga en hún minnkaði töluvert fyrir aðrar tímalengdir.
Sjá hér gögn um væntingar markaðsaðila:
Könnun á væntingum markaðsaðila fyrir þriðja ársfjórðung 2023
Sjá sérstaka upplýsingasíðu um væntingar markaðsaðila hér á vef Seðlabankans