Greiðslujöfnuður þjóðarbúsins, ytri staða og áhættuþættir
Í dag gefur Seðlabanki Íslands út ritið Greiðslujöfnuður þjóðarbúsins, ytri staða og áhættuþættir. Í ritinu er fjallað um greiðslujöfnuðinn við útlönd, fjármagnshreyfingar til og frá landinu, ytri stöðu þjóðarbúsins og áhættuþætti eftir heimsfaraldurinn. Þá er dregin upp greiðslujafnaðarsviðsmynd fyrir 2023 og 2024 til að varpa ljósi á líklegustu þróun greiðslujafnaðar og meta viðnámsþrótt þjóðarbúsins fyrir ytri áföllum.
Fram kemur að viðnámsþróttur þjóðarbúsins hafi verið góður þegar COVID-19 faraldurinn skall á árið 2020 sem hafi auðveldað stjórnvöldum að milda efnahagsleg áhrif af faraldrinum, þar með talið á greiðslujöfnuðinn við útlönd. Töluvert dró hins vegar úr þjóðhagslegum sparnaði frá 2019 til 2021, meðal annars vegna 30% samdráttar í útflutningi árið 2020 og mótvægisaðgerða stjórnvalda við faraldrinum. Samfelldur afgangur sem hafði verið á viðskiptum Íslands við útlönd frá árinu 2009 snerist í halla árið 2021. Þegar horfið var frá sóttvarnartakmörkunum hér á landi og í viðskiptalöndum eftir faraldurinn jukust útflutningstekjur aftur á móti á ný og voru sögulega miklar árið 2022. Um mitt ár 2023 var hrein erlend staða þjóðarbúsins jákvæð um 29% af landsframleiðslu og erlendar skuldir þjóðarbúsins um 100% af landsframleiðslu. Leita þarf aftur til síðustu aldamóta að lægra skuldahlutfalli.
Í sviðsmynd greiðslujafnaðar er búist við lítilsháttar viðskiptahalla við útlönd á þessu ári og því næsta. Gert er ráð fyrir að hann verði fjármagnaður með innstreymi fjármagns sem leiðir til þess að erlendar skuldir aukast. Auðseljanlegar krónueignir í eigu erlendra aðila eru litlar í sögulegu tilliti og því er áhætta þeim tengd lítil. Áætlað er að hrein staða við útlönd verði 25% af landsframleiðslu í árslok 2024 og gert er ráð fyrir að gjaldeyrisforðinn sem stóð í 763 ma.kr. (19% af landsframleiðslu) í lok september sl. verði áfram rúmur í hlutfalli við helstu forðaviðmið.
Ritið Greiðslujöfnuður þjóðarbúsins, ytri staða og áhættuþættir var síðast gefið út 2021. Með útgáfu ritsins leitast Seðlabankinn við að veita ítarlegar upplýsingar um greiðslujöfnuðinn við útlönd, gengis- og gjaldeyrismál.
Sjá hér: Greiðslujöfnuður þjóðarbúsins, ytri staða og áhættuþættir.
Sjá útgáfu frá 2021 hér: Sérrit 14: Greiðslujöfnuður þjóðarbúsins, ytri staða og áhættuþættir