logo-for-printing

15. nóvember 2023

Könnun á væntingum markaðsaðila

Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila dagana 6. til 8. nóvember sl. Leitað var til 38 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana, fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar og tryggingafélaga. Svör fengust frá 30 aðilum og var svarhlutfallið því 79%.

Helstu niðurstöður

Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að markaðsaðilar vænti þess að verðbólga verði að meðaltali 7,8% á fjórða ársfjórðungi. Þeir gera ráð fyrir að verðbólga hjaðni á næstu misserum og verði 5,5% að ári liðnu og 4,2% eftir tvö ár og lækkuðu væntingar á báða mælikvarða lítillega frá síðustu könnun í ágúst. Verðbólguvæntingar til fimm ára voru óbreyttar milli kannana og voru 4% en væntingar til tíu ára lækkuðu lítillega og voru 3,5%. Könnunin gefur til kynna að markaðsaðilar búist við litlum breytingum á gengi krónunnar á næstunni og að gengi evru gagnvart krónu verði 150 krónur eftir eitt ár.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við því að meginvextir bankans hafi náð hámarki í 9,25%. Þá gera þeir ráð fyrir að meginvextir taki að lækka á öðrum fjórðungi næsta árs og verði 8,25% eftir eitt ár og 6,25% eftir tvö ár. Þetta eru hærri vextir en markaðsaðilar bjuggust við í ágústkönnuninni.

Nokkur breyting varð á afstöðu svarenda til taumhalds peningastefnunnar. Áfram töldu flestir að taumhaldið væri hæfilegt um þessar mundir eða 60% svarenda en hlutfallið jókst úr 44% í ágústkönnuninni. Þeim sem töldu taumhaldið of laust fækkaði í 13% úr 30% í síðustu könnun og um 27% svarenda taldi að taumhaldið væri of þétt.

Dreifni svara markaðsaðila um væntingar til verðbólgu minnkaði á flesta mælikvarða frá síðustu könnun. Dreifni svara um væntingar til vaxta minnkaði einnig fyrir væntingar til núverandi ársfjórðungs og eftir einn og tvo ársfjórðunga en hún jókst nokkuð fyrir aðrar tímalengdir.

Markaðsaðilar voru einnig spurðir um hvert þeir telji áhættuálag vegna óvissu um verðbólguþróun á skuldabréfamarkaði vera um þessar mundir og hvort það hafi hækkað eða lækkað í ár. Svörin um áhættuálagið lágu á bilinu 0,3-4 prósentur en miðgildi svara var 0,85 prósentur. Þá töldu flestir að álagið hafi hækkað í ár, eða um 68% þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar, en um 16% töldu að það væri óbreytt í ár og 16% að það hafi lækkað á árinu.

Sjá hér gögn um væntingar markaðsaðila:

Könnun á væntingum markaðsaðila fyrir fjórða ársfjórðung 2023

Sjá sérstaka upplýsingasíðu um væntingar markaðsaðila hér á vef Seðlabankans

Til baka