logo-for-printing

03. janúar 2024

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar frá desember 2023

Fjármálastöðugleikanefnd ásamt ritara

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands tekur ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans varðandi fjármálastöðugleika. Á fundum nefndarinnar 20. og 28. nóvember og 4.-5. desember 2023 voru fluttar kynningar um þróun og horfur í efnahagsmálum, stöðu fjármálakerfisins og innviða greiðslumiðlunar. Nefndin ræddi stöðu og horfur fyrir fjármálastöðugleika og helstu áhættuþætti, svo sem þróun efnahagsmála og áhrif jarðhræringa á Reykjanesskaga á fjármálakerfið og efnahagslíf, áhættu í rekstri fjármálafyrirtækja og fjármálakerfisins, þróun á innlendum fjármálamörkuðum, skuldsetningu heimila og fyrirtækja, stöðu á fasteignamarkaði, virkni lánþegaskilyrða, eiginfjárstöðu fjármálafyrirtækja og fjármálasveifluna. Jafnframt ræddi nefndin um öryggi, hagkvæmni og skilvirkni fjármálainnviða og mikilvægi þeirra fyrir stöðugleika fjármálakerfisins. Nefndin fékk upplýsingar um fjárfestingastefnu lífeyrissjóða, eignasamsetningu og ávöxtun auk kynningar um áhrif sjóðanna á fjármálastöðugleika. Þá var vinna bankans við forsendur álagsprófa fyrir árið 2024 kynnt fyrir nefndinni. Nefndin fékk kynningu á niðurstöðu könnunar- og matsferlis (e. SREP) sem viðskiptabankarnir fóru í gegnum á árinu 2023 en út frá því er metin eiginfjárkrafa sem lögð er á þá undir stoð II-R. Þá fékk nefndin upplýsingar um málefni skilavalds og breytingar á lögum þeim tengdum.

Í ársfjórðungslegu endurmati ákvað fjármálastöðugleikanefnd að halda gildi sveiflujöfnunaraukans óbreyttu en samkvæmt ákvörðun nefndarinnar í mars sl. mun hann hækka úr 2% í 2,5% frá og með 16. mars 2024.

Sjá fundargerðina í heild hér: Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands (19. fundur). Birt 3. janúar 2024.

Sjá hér nánari upplýsingar um nefndina og störf hennar: Fjármálastöðugleikanefnd


Til baka