Skilaáætlanir fyrir sparisjóði samþykktar
Skilavald Seðlabanka Íslands hefur samþykkt skilaáætlanir fyrir fjóra sparisjóði, þ.e. Sparisjóð Austurlands, Sparisjóð Höfðhverfinga, Sparisjóð Strandamanna og Sparisjóð Suður-Þingeyinga. Áætlanirnar ná til ákvarðanatöku ef til þess kæmi að fjárhagsstaða sparisjóðanna yrði svo slæm að þeir teldust vera á fallanda fæti.
Skilaáætlanir sparisjóðanna fela í sér greiningu á því hvort mögulegt verði að endurreisa þá hratt og örugglega, án opinbers fjárstuðnings frá ríkissjóði eða Seðlabankanum, með beitingu skilaaðgerða eða að sparisjóðunum verði slitið. Áætlununum er ætlað að tryggja óheftan aðgang almennings og fyrirtækja að nauðsynlegri starfsemi (e. critical function) og að aðgerðir hafi ekki áhrif á fjármálastöðugleika í landinu.
Með samþykkt skilaáætlananna tók skilavaldið ákvarðanir um lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar fyrir sparisjóðina (MREL), í samræmi við lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020. MREL-kröfurnar eru byggðar á lögum um skilameðferð og MREL-stefnu Seðlabankans.
Skilaáætlanir sparisjóðanna eru unnar í samræmi við lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, auk reglugerða og reglna sem settar eru á grundvelli laganna. Hver skilaáætlun byggir á mati á skilabærni viðkomandi sparisjóðs en í matinu felst greining á starfsemi viðkomandi sparisjóðs og rökstuðningur fyrir þeirri leið sem fara ber, ef hann fellur, með hliðsjón af markmiðum laga um skilameðferð. Á meðal helstu markmiða er að tryggja að fall sparisjóðs hafi sem minnst áhrif á viðskiptavini hans, að lágmarka hættu á að veita þurfi fjárframlög úr ríkissjóði auk þess að lágmarka neikvæðar afleiðingar fjármálaáfalls.
Nánari upplýsingar um starfsemi skilavaldsins og skilameðferð lánastofnana má finna á vef Seðlabankans.