logo-for-printing

31. júlí 2024

Tómas Brynjólfsson skipaður varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika

Tómas Brynjólfsson
Tómas Brynjólfsson

Forsætisráðherra hefur á grundvelli niðurstöðu ráðgefandi hæfnisnefndar og að fenginni tilnefningu fjármála- og efnahagsráðherra, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 92/2019, um Seðlabanka Íslands, skipað Tómas Brynjólfsson í embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika til fimm ára frá og með 1. ágúst nk.

Tómas Brynjólfsson lauk meistaragráðu í alþjóðastjórnmálum frá London School of Economics árið 2004 og meistaragráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 2003. Þá lauk hann BA-gráðu í alþjóðastjórnmálafræði, sögu og hagfræði við University of Georgia árið 2002.

Tómas hefur gegnt embætti skrifstofustjóra á skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu frá árinu 2018 og var settur ráðuneytisstjóri frá janúar til apríl 2024. Á árunum 2015-2018 var hann framkvæmdastjóri á skrifstofu þjónustuviðskipta hjá EFTA-skrifstofunni í Brussel. Þá var hann skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála og fjármálamarkaða í fjármála- og efnahagsráðuneytinu á árunum 2013-2015 en starfaði áður sem sérfræðingur í efnahagsmálum í forsætisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti. Á árunum 2006-2008 starfaði hann í greiningardeild Landsbankans.

Tómas hefur víðtæka þekkingu og reynslu á sviðum fjármálamarkaða, fjármálastöðugleika og efnahagsmála og hefur m.a. tekið þátt í mótun umgjarðar um fjármálstöðugleika og regluverk á fjármálamarkaði. Þá býr hann yfir yfirgripsmikilli þekkingu á stjórnsýslu og regluverki fjármálmarkaða og þjóðhagsvarúðar.

Tómas var varaformaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins á árinu 2015 og stjórnarformaður hjá Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda á árunum 2021-2023. Hann hefur setið í fjölda nefnda og vinnuhópa á vegum stjórnvalda tengdum fjármálamörkuðum, efnahagsmálum og þjóðhagsvarúð auk þess að leiða alþjóðlegt samstarf stjórnvalda á sviði efnahagsmála, m.a. gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Efnahags- og framfarastofnuninni.

Sjá nánar á vef stjórnarráðsins: Tómas Brynjólfsson skipaður varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika

Til baka