Yfirlýsing peningastefnunefndar 21. ágúst 2024
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 9,25%.
Verðbólga hefur aukist lítillega frá síðasta fundi nefndarinnar eftir að hafa hjaðnað fram eftir ári. Undirliggjandi verðbólga er enn mikil og verðhækkanir eru á breiðum grunni þótt húsnæðisliðurinn vegi enn þungt. Verðbólguvæntingar hafa einnig lítið breyst og haldist yfir markmiði.
Hægt hefur á innlendri eftirspurn undanfarið ár í takt við aukið peningalegt taumhald. Nokkur spenna er þó enn til staðar í þjóðarbúinu og hefur lítið dregið úr henni frá maífundi nefndarinnar. Horfur eru því á að það geti tekið nokkurn tíma að ná fram ásættanlegri hjöðnun verðbólgu.
Peningastefnunefnd telur að núverandi aðhaldsstig sé hæfilegt til þess að koma verðbólgu í markmið en þrálát verðbólga og kraftur í innlendri eftirspurn kalla á varkárni. Mótun peningastefnunnar mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.
Frétt nr. 11/2024
21. ágúst 2024
Vextir verða því sem hér segir:
1. Daglán 11,0%
2. Lán gegn veði til 7 daga 10,0%
3. Innlán bundin í 7 daga 9,25%
4. Viðskiptareikningar 9,0%
Sjá einnig hér: Vextir og bindiskylda við Seðlabanka Íslands 21. ágúst 2024.