logo-for-printing

31. október 2024

Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2024

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Tómas Brynjólfsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, tóku þátt í ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og tengdum fundum í Washington DC dagana 21. til 26. október sl. ásamt öðrum fulltrúum Seðlabanka Íslands. Seðlabankastjóri er fulltrúi Íslands í sjóðsráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (e. Board of Governors), æðstu stofnun sjóðsins, en hann sat jafnframt fund fjárhagsnefndar sjóðsins (e. International Monetary and Financial Committee, IMFC).

Seðlabankastjóri og aðrir fulltrúar bankans áttu einnig fundi með sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, kjördæmi Norður- og Eystrasaltslanda hjá sjóðnum og fulltrúum lánshæfismatsfyrirtækja og alþjóðlegra fjármálafyrirtækja og hugveitna ásamt því að sækja málstofur og ráðstefnur á málefnasviði seðlabanka. Seðlabankastjóri tók einnig þátt í hringborðsumræðu um ramma um samþætta stefnumótun (e. Integrated Policy Framework, IPF) sem Gita Gopinath, aðstoðarframkvæmdastjóri sjóðsins, stýrði. Þátttakendur í hringborðinu voru fulltrúar landa sem hafa tekið þátt í innleiðingu sjóðsins á IPF. Sjóðurinn fjallaði um samþætta stefnumótun á grundvelli IPF í síðustu reglubundnu úttekt sinni á íslensku efnahagslífi (e. Article IV), sjá hér.

Fjárhagsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fundar tvisvar á ári og þar kynnir sjóðurinn mat sitt á stöðu og horfum í heimsbúskapnum, fjármálastöðugleika og ríkisfjármálum, auk þess sem framkvæmdastjóri sjóðsins kynnir stefnuyfirlýsingu sína (e. Global Policy Agenda, GPA).

Í stefnuyfirlýsingu framkvæmdastjórans og kynningum annarra forsvarsmanna sjóðsins kom m.a. fram að heimshagkerfið hafi sýnt mikinn viðnámsþrótt og að mjúk lending sé innan seilingar. Dregið hafi úr verðbólgu samhliða þéttara taumhaldi peningastefnu og minnkandi áhrifum framboðsskella. Hagvöxtur hefði verið nokkuð stöðugur og búist væri við að svo yrði áfram, a.m.k. fyrst um sinn. Enn ríki þó mikil óvissa, hagvaxtarhorfur til meðallangs tíma séu slakar, ríkisskuldir hafi náð methæðum og sundrun milli hagkerfa (e. geoeconomic fragmentation) gæti dregið úr þeim árangri sem alþjóðleg efnahagsleg samvinna hefur skilað. Á sama tíma munu umbreytingar líkt og græn umskipti, lýðfræðilegar breytingar og stafræn umbreyting, þar á meðal gervigreind, endurmóta heimshagkerfið og skapa bæði áskoranir og tækifæri.

Hér má finna stefnuyfirlýsinguna: The Managing Director's Global Policy Agenda, Annual Meetings 2024: Secure A Soft Landing And Break From The Low Growth–High Debt Path.

Þar sem ekki náðist nú, fremur en síðustu ár, samkomulag um orðalag vegna innrásar Rússlands í Úkraínu tókst fjárhagsnefndinni ekki að sammælast um sameiginlega yfirlýsingu á fundinum (IMFC Communiqué). Þess í stað gaf formaður nefndarinnar, Mohammed Aljadaan, fjármálaráðherra Sádi-Arabíu, út yfirlýsingu sem studd var af fulltrúum flestra ríkja í nefndinni (IMFC Chair’s Statement). Hér má finna yfirlýsinguna: Chair's Statement Fiftieth Meeting of the IMFC.

Fulltrúi kjördæmis Norður- og Eystrasaltslanda í fjárhagsnefndinni var að þessu sinni Trygve Slagsvold Vedum, fjármálaráðherra Noregs. Yfirlýsingu hans fyrir hönd kjördæmisins (e. IMFC Statement) má finna hér: IMFC Statement by Trygve Slagsvold Vedum, Minister of Finance, Norway, on behalf of Denmark, Republic of Estonia, Finland, Iceland, Republic of Latvia, Republic of Lithuania, Norway, and Sweden.

Margvísleg önnur gögn sem varða mat sjóðsins á stöðu og horfum í heimsbúskapnum um þessar mundir má finna á vef sjóðsins.

Mynd 1: Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Tómas Brynjólfsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika ásamt Albert Kammer yfirmanni Evrópudeildar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Mynd 2: Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri ásamt Gitu Gopinath aðstoðarframkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins


Til baka

Myndir með frétt

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Tómas Brynjólfsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika ásamt Albert Kammer yfirmanni Evrópudeildar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri ásamt Gitu Gopinath aðstoðarframkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins