Stefna um beitingu stjórnsýsluviðurlaga og þvingunarúrræða og reglur um heimild til að ljúka máli með sátt
Fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands hefur sett stefnu um beitingu stjórnsýsluviðurlaga og þvingunarúrræða. Stefnunni er ætlað að tryggja fyrirsjáanleika og jafnræði í beitingu stjórnsýsluviðurlaga og þvingunarúrræða, en viðurlögum er ætlað að hafa varnaðaráhrif sem miða að því að draga úr eða afstýra frekari brotum. Þá kemur einnig fram að tilgangurinn sé að draga úr líkum á því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila leiði til tjóns fyrir almenning og jafnframt að stuðla að fjármálastöðugleika og því að fjármálamarkaðurinn njóti trausts almennings.
Stefnan er sett á grunni laga um Seðlabanka Íslands nr. 92/2019 og er stefnumótunin nátengd því hlutverki fjármálaeftirlitsnefndar að taka ákvarðanir í málum sem snúa að beitingu refsikenndra viðurlaga. Stefnan tekur við af stefnu fjármálaeftirlitsins um beitingu þvingunarúrræða og viðurlaga frá 1. október 2015.
Sjá hér: Stefna um beitingu stjórnsýsluviðurlaga og þvingunarúrræða
Samhliða hefur Seðlabankinn sett reglur nr. 1234/2024 um heimild fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands til að ljúka máli með sátt. Þessum reglum er ætlað að gera málsmeðferð við gerð sátta gegnsærri en áður og skýra betur réttindi og skyldur málsaðila. Helstu breytingar lúta m.a. að því að skýra betur forræði fjármálaeftirlitsins á því hvort sátt komi til álita. Þá kveða nýjar reglur á um 30-50% lækkun á fjárhæð stjórnvaldssekta og þau skilyrði fyrir því að lækkun geti numið 50% en þau eru að aðili sýni mikinn samstarfsvilja og óski eftir að ljúka máli með sátt á fyrri stigum eða hafi frumkvæði að því að upplýsa um brot sitt. Loks gera nýjar reglur ráð fyrir því að birting sáttar fari fram svo fljótt sem verða má eftir að sátt liggur fyrir.
Sjá nýju reglurnar hér: Reglur um heimild fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands til að ljúka máli með sátt, nr. 1234/2024.
Samhliða gildistöku nýrra reglna falla úr gildi reglur nr. 326/2019 um heimild Fjármálaeftirlitsins til að ljúka máli með sátt.