Miðlægur innviður fyrir greiðslubeiðnir
Seðlabanki Íslands auglýsir eftir aðilum til þess að leggja fram tillögu að kostnaði og útfærslu fyrir miðlægan innvið fyrir greiðslubeiðnir.
Seðlabankinn leiðir vinnu við innleiðingu innlends og miðlægs innviðar fyrir greiðslubeiðnir, sem byggist á greiðslum milli bankareikninga. Innviðurinn verður undir fullu forræði Seðlabanka Íslands og hýstur innanlands.
Innviðurinn á að geta tekið á móti greiðslubeiðnum frá innlendum söluaðilum og öðrum viðtakendum greiðslna í íslenskum krónum sem hægt verður að miðla til staðfestingar hjá greiðanda. Greiðslubeiðnirnar verða staðlaðar og innviðurinn á að geta haldið utan um stöðu þeirra á hverjum tíma. Innviðurinn á að byggjast á Request-to-Pay tækni og tengjast núverandi tæknilegum fjármálainnviðum fyrir greiðslur milli bankareikninga hjá innlánsstofnunum og Seðlabankanum. Stefnt er að því að innviðurinn muni, þar sem við á, geta uppfyllt reglubók SEPA Request to Pay.
Innviðurinn á að geta gert aðilum sem uppfylla tiltekin skilyrði kleift að þróa aðgengilegar og hagkvæmar greiðslulausnir fyrir greiðendur með íslenska bankareikninga.
Seðlabanki Íslands auglýsir hér með eftir aðilum sem hafa áhuga og burði til þess að leggja fram tillögu að kostnaði og útfærslu þannig að unnt sé að framkvæma mat á fjárfestingar- og rekstrarkostnaði innviðarins. Athygli er vakin á því að einungis er verið að leita eftir upplýsingum um mögulegar útfærslur og kostnað þeirra án skuldbindingar af hálfu aðila.
Áhugasamir aðilar eru vinsamlegast beðnir um að senda tölvupóst á netfangið fv@gv.is fyrir 9. desember 2024, ef þeir hafa áhuga á að fá frekari upplýsingar um verkefnið. Meðfylgjandi skulu vera grunnupplýsingar um starfsemi aðila, ásamt tengiliðaupplýsingum.