logo-for-printing

04. desember 2024

Lækkun kerfisáhættuauka og hækkun eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki

Bygging Seðlabanka Íslands

Í dag voru birtar í Stjórnartíðindum nýjar reglur Seðlabanka Íslands um eiginfjárauka fyrir fjármálafyrirtæki vegna kerfisáhættu nr. 1414/2024 og eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki nr. 1415/2024. Báðar reglurnar voru samþykktar á fundi fjármálastöðugleikanefndar 3. desember sl.

Með reglum nr. 1414/2024 er hlutfall kerfisáhættuaukans, sem nær til innlendra áhættuskuldbindinga fjármálafyrirtækja sem hafa heimild til móttöku innlána, lækkað úr 3% í 2%. Með reglum nr. 1415/2024 er hlutfall eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki hækkað úr 2% í 3% af öllum áhættuskuldbindingum.

Að mati nefndarinnar hefur kerfisáhætta í innlenda hagkerfinu minnkað frá því að gildi kerfisáhættuaukans var fyrst ákveðið árið 2016. Viðnámsþróttur fjármálakerfisins hefur aukist sem birtist m.a. í minni breytileika helstu hagstærða þrátt fyrir að ýmis áföll hafi dunið yfir. Þá hafi ný þjóðhagsvarúðartæki sannað gildi sitt og umgjörð í kringum viðhald fjármálastöðugleika sé nú heilsteyptari en áður. Því ákvað nefndin að lækka hlutfall kerfisáhættuaukans.

Hækkun á hlutfalli eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki miðar að mati nefndarinnar að því að fanga betur þá áhættu sem að hagkerfinu stafar vegna stærðar og umfangs kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja.

Hlutfall kerfisáhættuaukans er endurskoðað á tveggja ára fresti en hlutfall eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki er endurskoðað árlega.

Ítarlegri umfjöllun um bakgrunn ákvarðana fjármálastöðugleikanefndar má finna hér:

Minnisblað – bakgrunnur ákvörðunar um kerfisáhættuauka
Minnisblað – bakgrunnur ákvörðunar um eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki

Frétt nr. 21/2024
4. desember 2024.


Til baka