Dómur kveðinn upp í máli Símans hf. gegn Seðlabanka Íslands
Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í máli Símans hf. gegn Seðlabanka Íslands og íslenska ríkinu síðastliðinn mánudag. Í málinu var tekist á um ákvörðun fjármálaeftirlitsnefndar Seðlabanka Íslands frá 31. október 2023 um að leggja stjórnvaldssekt að fjárhæð 76.500.000 krónur á Símann hf. fyrir brot gegn þágildandi 1. mgr. 122. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og 17. gr. reglugerðar um markaðssvik (MAR), sbr. lög nr. 60/2021 um aðgerðir gegn markaðssvikum.
Síminn hf. höfðaði mál gegn Seðlabankanum og krafðist ógildingar á ákvörðun fjármálaeftirlitsnefndar, til vara og þrautavara að stjórnvaldssektin yrði felld niður eða lækkuð verulega. Ágreiningur aðila fyrir dómstólum laut að því hvort innherjaupplýsingar hefðu myndast 31. ágúst 2021 um sölumeðferð Mílu ehf., dótturfélagi Símans hf., til Ardian France SA, sem stefnanda hafi borið að birta opinberlega eða fresta birtingu á.
Héraðsdómur féllst á að þær upplýsingar sem lágu fyrir 31. ágúst 2021 hjá Símanum hf. uppfylltu öll skilyrði innherjaupplýsingahugtaksins sem bæri að virða sem innherjaupplýsingar sem Símanum hf. bar að birta eins fljótt og auðið var, eða eftir atvikum að fresta birtingu á þeim. Á grundvelli þessa var ákvörðun fjármálaeftirlitsnefndar Seðlabanka Íslands staðfest sem og fjárhæð sektar sem lögð var á Símann hf.
Hér má nálgast dóminn í heild sinni: Dómur í máli Símans hf. gegn Seðlabanka Íslands
Frétt þessi er birt með vísan til 34. gr. MAR, sbr. 2. gr. laga um aðgerðir gegn markaðssvikum.