ESMA varar neytendur við áhættum tengdum fjárfestingu í sýndareignum
Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin (ESMA) hefur birt viðvörun á vefsvæði sínu þar sem vakin er athygli á áhættu tengdri fjárfestingu í sýndareignum (e. crypto-assets) og hvað fjárfestar ættu að hafa í huga vegna slíkra fjárfestinga. Frá því í nóvember á þessu ári hafa sýndareignir hækkað mikið í verði og samfara því hefur áhugi fjárfesta á þeim aukist. Stefnt er að því að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2023/1114 um markaði fyrir sýndareignir (MiCA) verði innleidd og taki gildi á Íslandi á næsta ári.
ESMA vekur athygli fjárfesta á því að fjárfestaverndin í MiCA sé ekki eins mikil og hún er í regluverki sem gildir um hefðbundnari fjárfestingarkosti. MiCA kveður t.a.m. ekki á um tryggingakerfi fyrir fjárfesta í viðskiptum við þjónustuveitendur sýndareigna (e. crypto-asset service provider - CASP). Þá sé þjónustuveitendum sýndareigna hvorki skylt að kanna tilhlýðileika fjárfestinga viðskiptavina sinna í sýndareignum né veita þeim reglulega yfirlit yfir stöðu eigna í vörslu hjá þeim með uppfærðu virði. Vakin er sérstök athygli á viðskiptum við þjónustuveitendur sýndareigna utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og hafa þarf í huga að MiCA veitir ekki neina fjárfestavernd vegna viðskipta við þjónustuveitendur sem ekki hafa fengið starfsleyfi í ríkjum innan EES.
Seðlabanki Íslands tekur undir sjónarmið ESMA og hvetur almenning til að kynna sér vel viðvörunina sem má finna hér í íslenskri þýðingu: Sýndareignir í vexti en eru enn ákaflega áhættusamar